Fréttir

Dagur íslenskrar tungu í Stapaskóla

Dagur íslenskrar tungu, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, var haldin hátíðlegur í Stapaskóla s.l. föstudag með fjölbreyttri dagskrá. Nemendur og starfsfólk skólans héldu upp á daginn til að minna á mikilvægi íslenskunnar, tungumálsins sem tengir okkur saman og heldur á lofti menningu okkar og sögu. Nemendur í 1.-6. bekk komu hvert af öðru fram og fluttu atriðin sín fyrir samnemendur í Tröllastiganum. Börnin fluttu bæði söng og upplestur og skapaðist hlý og ánægjuleg stemming. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hvað þau fluttu atriðin sín af einlægni og stolti. Nemendur í 7. – 10 bekk komu einnig saman í Tröllastiganum. Katla Diljá í 8. bekk las upp ljóð sem hún vann með í Stóru upplestrarkeppninni s.l. mars. Að því loknu rétti hún tveimur nemendum í 7. bekk Stóra upplestrarkeppnis keflið sem markar upphaf æfinga hjá 7. bekk þar sem þau taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni eftir áramót. Einnig var haldin lífleg og skemmtileg spurningakeppni milli kennara og nemenda. Keppnin fór fram í góðu hófi með húmor í fyrirrúmi. Ekki skemmdi það fyrir að nemendur stóðu sig með prýði og höfðu að lokum betur gegn kennurunum. Dagskráin í heild sinni var bæði fræðandi og skemmtileg og endurspeglaði vel mikilvægi íslenskrar tungu í skólastarfi okkar.
Lesa meira

Foreldrar / forráðamenn fylgjast með veðri!

Nú spáir frekar vondu veðri seinnipartin í dag, þriðjudaginn 28. október. Við biðjum foreldra að fylgjast vel með veðurspám og vera viðbúin að þurfa að sækja börnin þegar skóla lýkur ef veðurspá gengur eftir. Þegar veðurspár gefa til kynna að óveður sé í aðsigi á Suðurnesjum fylgjast Lögreglan og Almannavarnir gaumgæfilega með, hafa samstarf við skólana og gefa út viðvaranir til almennings, gerist þess þörf. Mikilvægt er að foreldrar sjálfir fylgist með veðri og veðurspám og hagi sér í samræmi við aðstæður hverju sinni. Foreldrar leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í og úr skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Við slíkar aðstæður eru skólarnir opnir og þar er öruggt skjól fyrir börnin.
Lesa meira

Lúðrasveit Tónlistaskóla Reykjanesbæjar heimsótti Stapaskóla

Lúðrasveit Tónlistaskóla Reykjanesbæjar hélt skemmtilega tónleika og hljóðfærakynningu fyrir nemendur í 3., 4. og 5. bekk Stapaskóla í íþróttahúsi skólans. Nemendum í sömu árgöngum í Akurskóla var einnig boðið að koma og njóta tónleikanna. Þau fluttu meðal annars vinsæl lög úr teiknimyndinni Aladdín og á milli laga kynntu meðlimir lúðrasveitarinnar hin ýmsu hljóðfæri fyrir nemendum. Tónleikarnir vöktu mikla lukku meðal nemenda sem hlustuðu af áhuga og tóku virkan þátt í kynningunni. Þetta var bæði fræðandi og skemmtileg stund sem vakti án ef áhuga margra á tónlist og hljóðfæraleik. Við þökkum Lúðrasveit Tónlistaskóla Reykjanesbæjar kærlega fyrir heimsóknina og frábæra tónleika.
Lesa meira

Haustfrí 17. og 20. október

Föstudaginn 17. október og mánudaginn 20. október er haustfrí hjá okkur á leik- og grunnskólastigi. Þetta þýðir að enginn skóli er þessa tvo daga og frístundaheimilið er einnig lokað. Þó er mikilvægt að taka fram að leikskólinn er opinn þessa daga, en aðeins fyrir þau börn sem foreldrar skráðu sérstaklega í vistun í haustfríi. Þessi skráning þurfti að hafa borist til skólans fyrir 26. september, þannig að þeir sem ekki skráðu börn sín fyrir þann tíma geta því miður ekki nýtt sér þessa þjónustu. Skólinn opnar aftur að venju þriðjudaginn 21. október og við hlökkum til að sjá alla aftur eftir haustfríið.
Lesa meira

Sjálfbærnivika í Reykjanes UNESCO jarðvangi tókst vel til

Vikuna 25. september til 1. október var í fyrsta skipti haldin Sjálfbærnivika í Reykjanes UNESCO jarðvangi. Hugmyndin að vikunni kom frá UNESCO skólateyminu sem samanstendur af fulltrúum frá Suðurnesjavettvangi, Reykjanes jarðvangi og GeoCamp Iceland. Nemendur skólans tóku virkan þátt í fjölbreyttum verkefnum sem sneru að sjálfbærni og umhverfisvernd. Þetta var fyrsta skrefið í því að gera sjálfbærnivikuna að árlegum viðburði sem vekur athygli á mikilvægi sjálfbærni í daglegu lífi. Eitt af áhrifaríkustu verkefnunum var ruslaplokk þar sem allir árgangar skólans tóku þátt. Fyrsti bekkur hreinsaði skólalóðina, á meðan aðrir árgangar tóku að sér mismunandi götur í nágrenni skólans. Nemendur í 10. bekk gengu alla leið niður að Stapaskóla og hreinsuðu svæðið meðfram Furudal, Lerkidal, Geirdal og Dalsbraut. Verkefnið fór fram á mánudeginum og tókst einstaklega vel. Annað mikilvægt verkefni var vigtun á matarafgöngum í mötuneyti skólans. UNESCO teymið hélt utan um vigtunina og deildi niðurstöðunum með starfsfólki sem síðan miðlaði upplýsingunum til nemenda. Þetta verkefni var liður í að auka umræðu meðal nemenda um matarsóun og hvernig hægt er að minnka hana. Í tengslum við Heimsins stærstu kennslustund unnu nemendur á unglingastigi með vistkeðjuna, en yngri árgangar völdu sér eitt heimsmarkmið sem þeir rýndu í gegnum fræðslu og leiki. Þetta gaf nemendum tækifæri til að kafa dýpra í sjálfbærnihugtakið og skilja betur hvernig þeir geta lagt sitt af mörkum. Kennarar skólans lögðu sitt af mörkum með því að ræða sjálfbærni við nemendur og tengja hana við námsefnið. Markmiðið með Sjálfbærnivikunni var að vekja athygli á ýmsu sem auðvelt er að breyta til þess að auka sjálfbærni í daglegu lífi okkar allra. Miðað við viðbrögð nemenda og starfsfólks, má segja að þetta markmið hafi sannarlega náðst.
Lesa meira

Heilsu- og forvarnarvika í leikskólanum - Hreyfing, gleði og leikur sameinuð

Í tilefni af heilsu- og forvarnarvika Reykjanesbæjar settum við í leikskólanum upp skemmtileg hreyfiverkefni á hverri deild sem gerðu börnunum kleift að efla bæði líkamlega og andlega færni á fjölbreyttan hátt. Markmiðið með þessum sérstöku verkefnum var að efla hreyfingu, samvinnu og gleði í gegnum leik og nám. Hvert verkefni var sérstaklega hannað með aldur og þroska barnanna í huga, sem tryggði að öll börn fengu verkefni við sitt hæfi. Yngri börnin fengu tækifæri til að kynnast litum, formum, dýrum og nýjum hreyfingum á leikrænan og lifandi hátt. Það var dásamlegt að fylgjast með þeim tengja saman sjónrænan skilning og líkamlega færni í gegnum fjölbreytta leiki. Þau stukku eins og froskur, skriðu eins og snákar og hlupu eins og hestar – allt á meðan þau lærðu um liti og form! Eldri börnin tókust á við örlítið flóknari áskoranir með fjölbreyttari hreyfingum og flóknari formum. Þau fengu að nota tening til að ákveða hversu oft æfingar skyldu framkvæmdar, sem styrkti bæði talnaskilning og hreyfiþrek í einu og sama verkefninu. Það var frábært að sjá hversu mikla ánægju þau höfðu af því að kasta teningnum og telja saman! Öll börnin tóku þessum verkefnum með mikilli gleði og einlægum áhuga. Það var augljóst að þau nutu þess að fá tækifæri til að sameina leik, hreyfingu og nám á skapandi hátt. Við erum stolt af börnunum okkar og hlökkum til að halda áfram að efla heilbrigði og vellíðan í gegnum leik og nám!
Lesa meira