Skólareglur

Skólareglur

Skólareglur Stapaskóla gilda fyrir alla aðila sem að skólastarfinu koma og alls staðar þar sem þeir eru á vegum skólans.

Námið
Við mætum stundvíslega, vel undirbúin með þau gögn sem nota skal. Við skulum vinna eins vel og við getum.

Samskipti
Skólinn er vinnustaður okkar allra, hver nemandi og starfsmaður á rétt á því að fá frið við leik og störf. Samskipti skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu og vinsemd.

Heilbrigði
Við tileinkum okkur hollar lífsvenjur. Notkun sælgætis og gosdrykkja er óheimil á skólatíma, nema í undantekningartilvikum með leyfi skólastjóra. Notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð.

Skólalóðin

Nemendur yfirgefa ekki skólalóðina á skólatíma án leyfis. Við göngum um skólalóðina okkar af virðingu.  Nemendur eru á ábyrgð foreldra utan skólalóðar bæði í og úr skóla nema um skólaakstur sé að ræða.

Ábyrgð

Við berum ábyrgð á eigin framkomu og munum að skólinn ber ekki ábyrgð á persónulegum verðmætum, sem komið er með í skólann. Óheimilt er að koma með í skólann þau tæki og tól sem geta valdið skaða.

Umgengni

Góð umgengni er í hávegum höfð í Stapaskóla. Við göngum vel um skólann og berum virðingu fyrir eigum hans og hvers annars. Við röðum skóm, göngum frá útifatnaði og hirðum vel um námsbækur og önnur gögn.

Ferðir

Í ferðalögum og á skemmtunum skólans eru allar reglur skólans í fullu gildi, nema annað sé tekið fram.

 

Verkreglur varðandi einstaka skólareglur

  • Námið: Stapaskóli vinnur eftir viðbragðsáætlun Reykjanesbæjar varðandi skólasókn, en bærinn hefur sett upp viðmið um mætingar sem kennarar þurfa að kynna sér mjög vel og fylgja eftir (https://www.stapaskoli.is/is/hagnytt/vidbrogd-vid-ofullnaegjandi-skolasokn).
  • Samskipti: Í skólanum eru starfsmenn í verkstjórnarhlutverki og verða nemendur að hlíta tilmælum þeirra í hvívetna. Ef samskipti nemenda á milli eða milli nemenda og starfsfólks brjóta reglu um almenna virðingu í samskiptum er brugðist við samkvæmt almennum starfsreglum.
  • Heilbrigði: Ef nemandi verður uppvís að reykingum, neyslu eða vörslu áfengis eða annarra vímuefna, má nemandinn eiga von á því að vera vísað úr skóla það sem eftir lifir skóladags eða lengur eftir atvikum. Gosdrykkir og sætindi eru gerð upptæk hjá nemanda á skólatíma, nema fyrir liggi sérstakt leyfi frá skólanum.
  • Skólalóðin: Beiðni þarf frá foreldrum um að yngri börn í 1. – 5. bekk yfirgefi skólalóð á skólatíma. Ef uppvíst verður að yngri nemendur hafi farið af skólalóð í leyfisleysi eru foreldrar barna tafarlaust látnir vita. Eldri nemendur þurfa ávallt að hafa leyfi skólans til að fara af skólalóð á skólatíma. Notkun reiðhjóla, línuskauta, hlaupahjóla og hjólabretta á skólalóð er bönnuð á starfstíma skólans vegna slysahættu.
  • Ábyrgð: Nemendur bera ábyrgð á þeim verðmætum sem þeir kjósa að koma með í skólann og skólinn bætir ekki tjón á þeim verðmætum. Ef komið er með vopn, eggjárn, skotelda og aðra hluti sem skaða geta valdið er slíkt gert upptækt, foreldrum og eftir atvikum lögreglu gert viðvart og viðkomandi getur átt á hættu að vera rekinn úr skóla það sem eftir lifir skóladags eða lengur eftir atvikum.
  • Umgengni: Ef nemandi er uppvís að slæmri umgengni eða sóðaskap þarf hann að þrífa eftir sig. Nemendur skulu ávallt ganga frá útifatnaði og skóm á viðeigandi stöðum. Ef nemendur koma í útifatnaði inn í kennslustundir er þeim gert að fara og setja hann á viðeigandi staði. Ef nemandi veldur viljandi eða með hirðuleysi skemmdum á eignum skólans eða annarra má hann búast við því að þurfa að bæta skaðann.
  • Ferðir: Skólareglur gilda í skólabílum og öllum ferðalögum á vegum skólans. Gerist nemandi sekur um alvarlegt brot á reglum skólans eða landslögum hvar sem hann er staddur á vegum skólans, verður hann, í samráði við skólastjóra, sendur heim á kostnað forráðamanna sinna.

 

Flokkar agabrota

Stapaskóli hefur sett upp viðmið um alvarleika agabrota. Agabrot eru flokkuð í þrjá flokka; gulan, appelsínugulan og rauðan. Flokkarnir eru ekki endanlegt yfirlit yfir agabrot en hjálpa til við að greina alvarleika brota og bregðast við þeim samkvæmt því.

 

Starfsreglur

  1. Við fyrsta brot fær nemandi tiltal hjá viðkomandi starfsmanni. Tiltalið er skráð í Mentor.
  2. Láti nemandi sér ekki segjast er hann áminntur og brotið skráð í Mentor af umsjónarkennara eða stjórnanda.
  3. Láti nemandi sér enn ekki segjast eða brotið er í alvarlegri kantinum (sjá flokkun agabrota) má vísa honum úr tíma eða af vettvangi og er þá foreldrum ávallt gert viðvart af viðkomandi starfsmanni, umsjónarkennara eða skólastjórnanda. Starfsmaðurinn tilkynni skólastjórnendum skólans að hann hyggist vísa nemanda úr tíma eða af vettvangi og ákvörðun er tekin hvar nemandin skal dvelja umræddan tíma. Nemanda sem vísað hefur verið úr kennslustund er ávallt í umsjón starfsmanns. Framvinda máls skráð í Mentor.
  4. Virði nemandinn regluna alls ekki þrátt fyrir ofangreind þrep, eða brot hans er mjög alvarlegt er honum vísað beint til skólastjórnenda, sem ákveða frekari aðgerðir og er foreldrum gert viðvart. Framvinda máls skráð í Mentor.

 

  • Annað starfsfólk, skólabílstjórar og eftir atvikum aðrir kennarar komi upplýsingum um brot til umsjónarkennara svo þeir geti skráð brotið.
  • Við alvarleg og ítrekuð brot á skólareglum getur þurft að grípa til tímabundinnar brottvísunar úr skóla, brottvísunar úr einstökum greinum eða brottvísunar um lengri tíma meðan leitað er úrlausnar mála. Um brottvísun úr einstökum greinum eða brottvísunar í lengri tíma en nemur einum skóladegi gilda ákvæði stjórnsýslulaga.
  • Þar sem viðbrögð við brotum á agareglum eru samvinnuverkefni foreldra/forráðamanna og skóla væntir Stapaskóli þess að foreldrar/forráðamenn verði í góðu samstarfi með að framfylgja skólareglum og viðurlögum við þeim.
  • Við meðferð agabrota er varða landslög er lögreglu og félagsmálayfirvöldum gert viðvart eftir atvikum.

 

Almenn viðbrögð við agavandamálum

Umsjónarkennari ræðir við nemendahópinn sinn um skólareglur og umgengni og gerir hópinn samábyrgan fyrir góðum bekkjaranda og hvetjandi námsumhverfi. Skólareglur og bekkjarreglur skulu vera sýnilegar á veggjum í hverju rými. Hver kennari tekur á agamálum hjá sínum nemendum og lætur umsjónarkennara vita af hegðunarvandkvæðum ef hann telur þörf á því.