Sérkennsla

Skipulag sérkennslu er í samvinnu við skólastjóra og umsjónarkennara. Sérkennslan er skipulögð með þarfir nemandans að leiðarljósi og stuðst er við greiningar sem nemendur eru með frá sérfræðingum.

Markmið allrar kennslu í skólanum eru í stórum dráttum:

  • Að styrkja jákvæða sjálfsmynd nemandans og sjálfstæði.
  • Að efla hæfni nemandans til félagslegra samskipta.
  • Að auka færni nemandans bæði í bóklegum og verklegum greinum.

Ef nemandi fylgir ekki jafnöldrum í almennri kennslu kemur sérkennsla til skjalanna. Þar er reynt að mæta þörfum nemenda með því að:

  • Styðja nemendur í að halda í við jafnaldra í námsefni árgangsins
  • Aðlaga námsefni og kröfur að hverjum og einum nemanda.

Í sérkennslu er unnið með nemendur sem þurfa verulega aðstoð í lestri, stafsetningu og stærðfræði. Oftast er gerð einstaklingsnámskrá fyrir hvern nemanda þar sem námsmarkmið eru tilgreind. Unnið er með nemendur í misstórum hópum. Meginmarkmið með sérkennslu í Stapaskóla er að stuðla að alhliða þroska nemenda. Leitast er við að ná þessu markmiði með jákvæðu viðmóti og virðingu fyrir einstaklingnum um leið og lögð eru fyrir verkefni við hæfi.