Skólanámskrá - Almennur hluti

 

Skólanámskrá

  • Inngangur
  • Saga skólans
  • Stefna skólans og sýn
  • Kennsluaðferðir
  • Námsmat
  • Innra mat
  • Samstarf heimilis og skóla
  • Samstarf við aðrar skólastofnanir
  • Starfsmannastefna
  • Móttökuáætlanir
  • Skólareglur
  • Forvarnaráætlanir
  • Áfengis- og fíknivarnir
  • Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi
  • Umhverfisáætlun
  • Viðbragðsáætlanir og rýming
 

Inngangur

Stapaskóli er heildstæður skóli fyrir börn á aldrinum 18 mánaða til 16 ára í Dalshverfi í Reykjanesbæ. Fjöldi nemenda við fullsetinn skóla er um 500 á grunnskólaaldri og 120 á leikskólaaldri. Stefnt er að því að Stapaskóli verði hjarta hverfisins og muni þjóna íbúum grenndarsamfélagsins sem menningarmiðstöð. Í Stapaskóla fer fram metnaðarfullt skólastarf þar sem gleði, vinátta , samvinna og virðing eru þau gildi sem höfð eru að leiðarljósi.

Megineinkenni skólans er sveigjanleiki; í kennsluháttum, í nýtingu rýmis, í skipulagi vinnudags og skilum á milli skólastiga. Stapaskóli leggur áherslu á teymiskennslu, tækni og heildstæð verkefni sem eru samþætt í námsgreinar. Einnig er sérstök áhersla á sköpun og listir og verklegt nám ásamt nánum tengslum við nánasta umhverfi.

 

 

Saga skólans

Í Stapaskóla er öflugt starfsfólk sem er að stíga sín fyrstu skref í því að skapa framsækið og fjölbreytt skólastarf fyrir börn og ungmenni í hverfinu. Starfsfólkið leggur sig fram við að skapa nemendum áhugahvetjandi verkefni sem eru samþætt í gegnum allar námsgreinar með skapandi verkefnaskilum. Við viljum að Stapaskóli sé öðruvísi og að það sé áhersla á framsýni. Megináhersla okkar er á sameiginlega sýn um framúrskarandi skólastarf þar sem nemendur fást við heildstæð viðfangsefni og verkefni sem tengjast áhugasviði þeirra. Allt umhverfi nemenda er hugsað með vellíðan þeirra að leiðarljósi. Þeir fá að velja sér námsaðstæður, þeir fá að velja sér tæki og tól sem henta við hvert viðfangsefni. Fjölbreyttar vinnuaðstæður felast í því að nemendur geta valið að sitja við mismunandi stærðir af borðum og stólum, valið að standa, vera á grjónapúða eða á teppi, setið í glugganum, tyllt sér á setkolla eða farið í hringinn í miðjunni þar sem teppi er á gólfi og bólstraðir bekkir við endann. Allt með hag og vellíðan þeirra að leiðarljósi.

 

Stefna skólans og sýn

Í Stapaskóla er rík áhersla lögð á að nemendum líði vel, að þeir geti valið sér vinnuumhverfi við hæfi og að starfsfólk þjónusti þá á fjölbreyttan og skapandi hátt. Nemendur hafa þess kost að velja sér vinnuaðstæður sem þeim hentar, skólahúsgögn eru fjölbreytt þar sem þægindi og fjölbreytileiki er hafður að leiðarljósi. Allt umhverfi er sveigjanlegt og hreyfanlegt til að þjónusta nemendur á sem bestan hátt.

Í hverri tvennd eru tveir árgangar þar sem fjölbreytt rými eru til afnota og í miðju tvenndar er hringur sem býður uppá margs konar notkun og kennslufyrirkomulag. Mikið er lagt uppúr samþættingu námsgreina og heilstæðum verkefnum þar sem kennarar úr mismunandi teymum vinna saman. Skólastarfið á að vera skemmtilegt og því er gleðin í hávegum höfð bæði hjá nemendum og starfsfólki. Í Stapaskóla er mikið lagt upp úr fjölbreyttri kennslu þar sem tæknin er nýtt til fullnustu. Nemendur hafa því kost á að velja sér vinnuaðstæður við hæfi og vinnutæki sem hentar hverju og einum.

Í Stapaskóla er lögð áhersla á metnaðarfullt skólastarf og að traust og virðing ríki meðal fólks. Góð samvinna starfsfólks, nemenda, foreldra og annarra samstarfsaðila skólans er mikilvæg. Starfsmenn skólans ígrunda störf sín og leita sífellt leiða til frekari umbóta og stefna að því sameiginlega markmiði að bæta vellíðan og árangur nemenda á öllum sviðum. Lögð er áhersla að við skólann starfi fjölbreyttar starfsstéttir til að mæta nemendum á sem bestan hátt.

Einkunnarorð skólans eru; Gleði – Vinátta – Samvinna – Virðing. Einkunnaorðin voru valin af starfsfólki, nemendum og foreldrum.

Gleði

Í Stapaskóla er mikil áhersla á gleðina, bæði hjá nemendum og starfsfólki. Það er gaman í skólanum og það er gaman í vinnunni. Í jákvæðu umhverfi er auðveldara að læra, leika og starfa. Með gleði að leiðarljósi eykst kímnigáfa, hlátur og vellíðan.

Vinátta

Við leggjum áherslu á að sýna hvort öðru vináttu, nemendum, foreldrum og starfsfólki. Við sýnum vináttu með góðum, jákvæðum samskiptum og sýnum hvort öðru samkennd. Með því að sýna hvort öðru áhuga og erum vinaleg styrkist vináttan.

Samvinna

Stapaskóli er teymiskennsluskóli. Þar vinnur allt starfsfólk saman í teymum að sameiginlegum markmiðum. Nemendur vinna einnig saman í hópum, þvert á hópa og jafnvel þvert á skólastig. Lögð er áhersla á hjálpsemi þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín í fjölbreyttum hópi nemenda og starfsfólks. 

Virðing

Virðing er að viðurkenna og taka tillit til allra í hópnum, nemenda og starfsmanna. Við sýnum virðingu með því að skilja og virða fjölbreytileika nemenda- og starfsmannahópsins. Við komum fram við aðra á sama hátt og við viljum að aðrir komi fram við okkur.

Skólasáttmáli

Í skólanum er lögð áhersla á öflugt skólasamfélag sem byggir á góðu samstarfi skólans, heimilanna og nærsamfélagsins alls. Velferð nemenda og góð námsframvinda byggir ekki síst á því að foreldrar styðji við skólagöngu barna sinna og séu virkir þátttakendur í námi þeirra og starfi. Áhersla er lögð á reglulegar upplýsingar um líðan og námsframvindu frá skóla til heimilis og einnig nána samvinnu um úrlausn vandamála sem upp kunna að koma.

 

Kennsluaðferðir

Í Stapaskóla er áhersla lögð á metnaðarfullt skólastarf þar sem markmiðið er að hver einstaklingur fái notið sín. Kennarar viðhafa fjölbreytta kennsluhætti með markvissu skipulagi kennslu og náms án aðgreiningar. Áhersla er lögð á að koma til móts við þarfir mismunandi einstaklinga og auka líkur á að nemendur nái að efla styrkleika sína og virkja þá krafta sem í þeim búa. Áhersla er lögð á að nemendur séu virkir þátttakendur í leik og starfi og sýni frumkvæði við þekkingarleit.

Kennsla er skipulögð út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla, viðmiðum um lykilhæfni og áherslum skólans almennt sem og í einstökum greinum. Kennslufyrirkomulag er misjafnt eftir greinum og aldursstigum.

Á yngra stigi er lögð er áhersla á skapandi vinnubrögð, hringekjunám og samþættingu.

Á eldra stigi eru allar bóklegar greinar samþættar í Stapamix sem er þróunarstarf kennaranna við skólann.

Allir nemendur í 6. – 10. bekk hafa spjaldtölvu til afnota í náminu.

Yngri nemendur geta notað spjaldtölvur í bekkjarsettum. Spjaldtölvurnar auka fjölbreytni í náms- og kennsluháttum og nemendur hafa fleiri valmöguleika í uppsetningu og skilum á verkefnum. Einnig gefst nemendum með lestrarörðugleika tækifæri til að nýta sér tæknina með ýmsu móti, m.a. með því að stækka letur, breyta um bakgrunnslit og hlusta á lesinn texta. Jafnframt reynist auðveldara að einstaklingsmiða námið.

Unnið er markvisst að því að auka ábyrgð nemenda og þeir hvattir til að takast á við verkefni sín með jákvæðu hugarfari og þrautseigju. Mikilvægt er að nemendur geri sér grein fyrir því að þeir eru ábyrgir fyrir eigin námi. Brýnt er fyrir nemendum að íhuga sitt eigið nám og námsaðferðir. Einnig að vera meðvitaðir um hvernig þeir sinna sínu námi og að þær kröfur sem þeir gera til sjálfra sín ráða mestu um hvernig þeim gengur. Nemendum er liðsinnt varðandi þetta með því að þeir leggja markvisst mat á vinnubrögð sín og vinnuframlag.

Allir starfsmenn skólans styðja við nemendur svo þeir megi vaxa og þroskast sem ábyrgir og sjálfstæðir einstaklingar. Hlutverk starfsfólksins er að skapa jákvætt námsumhverfi og vera nemendum fyrirmyndir varðandi viðhorf til náms, vinnubrögð og vinnusemi. Starfsmenn nýta sér hugmyndir og aðferðir Uppbyggingarstefnunnar í samskiptum sínum við nemendur.

 

Námsmat

Mat á hæfni og framförum nemenda er mikilvægur þáttur skólastarfsins. Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð tilsettum markmiðum. Námsmat veitir einnig nemendum, foreldrum og kennurum upplýsingar um námsgengi, hæfni nemenda og vinnubrögð.

Í Stapaskóla er litið á allt skólaárið sem eitt námsmatstímabil. Á samtalsdegi í janúar er framvinda náms til umræðu við nemendur og foreldra og markmið fyrir restina af skólaárinu sett. Námsmat fer fram jafnt og þétt yfir skólaárið og eru niðurstöður færðar inn í Mentor eins fljótt og auðið er eftir að þær liggja fyrir. Í lok skólaársins á því allt námsmat að vera aðgengilegt í Mentor en það er eingöngu sett fram með rafrænum hætti.

Á skólaslitum fá nemendur útprentuð viðurkenningarskjöld með umsögn frá umsjónarkennara. Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat og að það nái til sem flestra námsþátta. Metin eru verkleg, munnleg, skrifleg og myndræn verkefni og próf, með eða án hjálpargagna. Kennarar leiðbeina nemendum um raunhæft sjálfsmat og gera þeim grein fyrir markmiðum náms og hvernig þeim miðar í átt að þeim.

Í skólanum er lögð áhersla á leiðsagnarmat sem byggist á því að að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennara. Leiðsagnarmat fer fram í kennslustundum og byggir fyrst og fremst á endurgjöf og leiðsögn á meðan nemandi vinnur verkefni sín hverju sinni. Einnig með leiðbeinandi endurgjöf á skilaverkefni sem lögð eru fyrir og eiga að þjálfa nemendur fyrir lokamat í ákveðnum námsþætti eða námsgrein. Bekkjarnámskrár eru birtar á heimasíðu skólans og í þeim kemur fram hvernig námsmati er háttað í hverjum námsþætti.

Innra mat

Sjálfsmat

Í lögum um grunnskóla 91/2008 eru ákvæði um sjálfsmat skóla. Megintilgangur með sjálfsmati í Stapaskóla er að auðvelda starfsfólki skólans að vinna að framgangi markmiða hans, meta hvort þeim hafi verið náð, endurskoða þau og stuðla að faglegum grundvelli fyrir umbótum. Matið þarf að vera altækt þar sem það nær til allra þátta skólastarfsins og er árangursmiðað, þar sem upplýsingarnar munu verða nýttar sem grundvöllur að ákvarðanatöku um frekari þróun skólastarfs. Matið er jafnframt samstarfsmiðað, þar sem það er unnið af starfsmönnum skólans á grundvelli margvíslegra upplýsinga sem safnað hefur verið saman og það er stofnana- og einstaklingsmiðað þar sem litið er á skólann sem heild og einstaklinga sem þar starfa.

Sjálfsmatsskýrsla

Í skýrslu um sjálfsmat Stapaskóla er greint frá innra mati skólans þar sem tekið er mið af niðurstöðum sem liggja fyrir um innra starf og stefnu Stapaskóla. Matið er unnið af stjórnendum skólans á grunni upplýsinga sem safnað hefur verið. Niðurstöður eru bornar saman við markmið skólans, stefnu Reykjanesbæjar í fræðslumálum og metnar eru sterkar og veikar hliðar skólastarfsins.

Sjálfsmatsskýrsla 2022-2023

Sjálfsmatsskýrsla 2021-2022

Sjálfsmatsskýrsla 2020 - 2021

Sjálfsmatsskýrsla 2019-2020

Umbótaáætlun

Í framhaldi af niðurstöðum af sjálfsmatsskýrslu hvers árs er sett fram umbótaráætlun á grundvelli niðurstaðna sem fram komu í sjálfsmatsskýrslu.

Umbótaáætlun 2020-2023

Skólapúlsinn

Nemendakönnun Skólapúlsins er lögð fyrir úrtak nemenda í 6. - 10. bekk tvisvar á hverju skólaári. Foreldrakönnun Skólapúlsins er lögð fyrir úrtak foreldra á báðum skólastigum annað hvert skólaár. Starfsmannakönnun Skólapúlsins er lögð fyrir allt starfsfólk annað hvert skólaár.

2020 - 2021 - Nemendakönnun, apríl / Nemendakönnun, október / Foreldrakönnun

2021 - 2022 - Nemendakönnun, apríl / Nemendakönnun, október

2022 - 2023 - Nemendakönnun, október / Nemendakönnun, desember / Nemendakönnun, febrúar / Nemendakönnun, apríl / Foreldrakönnun (leikskólastig) / Foreldrakönnun (grunnskólastig)

2023 - 2024 - Nemendakönnun, október / / Nemendakönnun, desember /

 

Samstarf heimilis og skóla

Þessum texta geta notendur breytt eftir þörf

 

Samstarf við aðrar skólastofnanir

Þessum texta geta notendur breytt eftir þörf

 

Starfsmannastefna

Þessum texta geta notendur breytt eftir þörf

 

Móttökuáætlanir

Tekið er á móti nýjum nemendum Stapaskóla samkvæmt móttökuáætlun. Á hér við um nemendur sem eru að hefja nám í 1. bekk, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi.

Móttaka nýrra nemenda í Stapaskóla

Móttaka nýrra starfsmanna í Stapaskóla

 

Skólareglur

Skólareglur

Skólareglur Stapaskóla gilda fyrir alla aðila sem að skólastarfinu koma og alls staðar þar sem þeir eru á vegum skólans.

Námið
Við mætum stundvíslega, vel undirbúin með þau gögn sem nota skal. Við skulum vinna eins vel og við getum.

Samskipti
Skólinn er vinnustaður okkar allra, hver nemandi og starfsmaður á rétt á því að fá frið við leik og störf. Samskipti skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu og vinsemd.

Heilbrigði
Við tileinkum okkur hollar lífsvenjur. Notkun sælgætis og gosdrykkja er óheimil á skólatíma, nema í undantekningartilvikum með leyfi skólastjóra. Notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð.

Skólalóðin

Nemendur yfirgefa ekki skólalóðina á skólatíma án leyfis. Við göngum um skólalóðina okkar af virðingu.  Nemendur eru á ábyrgð foreldra utan skólalóðar bæði í og úr skóla nema um skólaakstur sé að ræða.

Ábyrgð

Við berum ábyrgð á eigin framkomu og munum að skólinn ber ekki ábyrgð á persónulegum verðmætum, sem komið er með í skólann. Óheimilt er að koma með í skólann þau tæki og tól sem geta valdið skaða.

Umgengni

Góð umgengni er í hávegum höfð í Stapaskóla. Við göngum vel um skólann og berum virðingu fyrir eigum hans og hvers annars. Við röðum skóm, göngum frá útifatnaði og hirðum vel um námsbækur og önnur gögn.

Ferðir

Í ferðalögum og á skemmtunum skólans eru allar reglur skólans í fullu gildi, nema annað sé tekið fram.

 

Verkreglur varðandi einstaka skólareglur

  • Námið: Stapaskóli vinnur eftir viðbragðsáætlun Reykjanesbæjar varðandi skólasókn, en bærinn hefur sett upp viðmið um mætingar sem kennarar þurfa að kynna sér mjög vel og fylgja eftir (https://www.stapaskoli.is/is/hagnytt/vidbrogd-vid-ofullnaegjandi-skolasokn).
  • Samskipti: Í skólanum eru starfsmenn í verkstjórnarhlutverki og verða nemendur að hlíta tilmælum þeirra í hvívetna. Ef samskipti nemenda á milli eða milli nemenda og starfsfólks brjóta reglu um almenna virðingu í samskiptum er brugðist við samkvæmt almennum starfsreglum.
  • Heilbrigði: Ef nemandi verður uppvís að reykingum, neyslu eða vörslu áfengis eða annarra vímuefna, má nemandinn eiga von á því að vera vísað úr skóla það sem eftir lifir skóladags eða lengur eftir atvikum. Gosdrykkir og sætindi eru gerð upptæk hjá nemanda á skólatíma, nema fyrir liggi sérstakt leyfi frá skólanum.
  • Skólalóðin: Beiðni þarf frá foreldrum um að yngri börn í 1. – 5. bekk yfirgefi skólalóð á skólatíma. Ef uppvíst verður að yngri nemendur hafi farið af skólalóð í leyfisleysi eru foreldrar barna tafarlaust látnir vita. Eldri nemendur þurfa ávallt að hafa leyfi skólans til að fara af skólalóð á skólatíma. Notkun reiðhjóla, línuskauta, hlaupahjóla og hjólabretta á skólalóð er bönnuð á starfstíma skólans vegna slysahættu.
  • Ábyrgð: Nemendur bera ábyrgð á þeim verðmætum sem þeir kjósa að koma með í skólann og skólinn bætir ekki tjón á þeim verðmætum. Ef komið er með vopn, eggjárn, skotelda og aðra hluti sem skaða geta valdið er slíkt gert upptækt, foreldrum og eftir atvikum lögreglu gert viðvart og viðkomandi getur átt á hættu að vera rekinn úr skóla það sem eftir lifir skóladags eða lengur eftir atvikum.
  • Umgengni: Ef nemandi er uppvís að slæmri umgengni eða sóðaskap þarf hann að þrífa eftir sig. Nemendur skulu ávallt ganga frá útifatnaði og skóm á viðeigandi stöðum. Ef nemendur koma í útifatnaði inn í kennslustundir er þeim gert að fara og setja hann á viðeigandi staði. Ef nemandi veldur viljandi eða með hirðuleysi skemmdum á eignum skólans eða annarra má hann búast við því að þurfa að bæta skaðann.
  • Ferðir: Skólareglur gilda í skólabílum og öllum ferðalögum á vegum skólans. Gerist nemandi sekur um alvarlegt brot á reglum skólans eða landslögum hvar sem hann er staddur á vegum skólans, verður hann, í samráði við skólastjóra, sendur heim á kostnað forráðamanna sinna.

 

Flokkar agabrota

Stapaskóli hefur sett upp viðmið um alvarleika agabrota. Agabrot eru flokkuð í þrjá flokka; gulan, appelsínugulan og rauðan. Flokkarnir eru ekki endanlegt yfirlit yfir agabrot en hjálpa til við að greina alvarleika brota og bregðast við þeim samkvæmt því.

 

Starfsreglur

  1. Við fyrsta brot fær nemandi tiltal hjá viðkomandi starfsmanni. Tiltalið er skráð í Mentor.
  2. Láti nemandi sér ekki segjast er hann áminntur og brotið skráð í Mentor af umsjónarkennara eða stjórnanda.
  3. Láti nemandi sér enn ekki segjast eða brotið er í alvarlegri kantinum (sjá flokkun agabrota) má vísa honum úr tíma eða af vettvangi og er þá foreldrum ávallt gert viðvart af viðkomandi starfsmanni, umsjónarkennara eða skólastjórnanda. Starfsmaðurinn tilkynni skólastjórnendum skólans að hann hyggist vísa nemanda úr tíma eða af vettvangi og ákvörðun er tekin hvar nemandin skal dvelja umræddan tíma. Nemanda sem vísað hefur verið úr kennslustund er ávallt í umsjón starfsmanns. Framvinda máls skráð í Mentor.
  4. Virði nemandinn regluna alls ekki þrátt fyrir ofangreind þrep, eða brot hans er mjög alvarlegt er honum vísað beint til skólastjórnenda, sem ákveða frekari aðgerðir og er foreldrum gert viðvart. Framvinda máls skráð í Mentor.

 

  • Annað starfsfólk, skólabílstjórar og eftir atvikum aðrir kennarar komi upplýsingum um brot til umsjónarkennara svo þeir geti skráð brotið.
  • Við alvarleg og ítrekuð brot á skólareglum getur þurft að grípa til tímabundinnar brottvísunar úr skóla, brottvísunar úr einstökum greinum eða brottvísunar um lengri tíma meðan leitað er úrlausnar mála. Um brottvísun úr einstökum greinum eða brottvísunar í lengri tíma en nemur einum skóladegi gilda ákvæði stjórnsýslulaga.
  • Þar sem viðbrögð við brotum á agareglum eru samvinnuverkefni foreldra/forráðamanna og skóla væntir Stapaskóli þess að foreldrar/forráðamenn verði í góðu samstarfi með að framfylgja skólareglum og viðurlögum við þeim.
  • Við meðferð agabrota er varða landslög er lögreglu og félagsmálayfirvöldum gert viðvart eftir atvikum.

 

Almenn viðbrögð við agavandamálum

Umsjónarkennari ræðir við nemendahópinn sinn um skólareglur og umgengni og gerir hópinn samábyrgan fyrir góðum bekkjaranda og hvetjandi námsumhverfi. Skólareglur og bekkjarreglur skulu vera sýnilegar á veggjum í hverju rými. Hver kennari tekur á agamálum hjá sínum nemendum og lætur umsjónarkennara vita af hegðunarvandkvæðum ef hann telur þörf á því.

 

Forvarnaráætlanir

Þessum texta geta notendur breytt eftir þörf

 

Áfengis- og fíknivarnir

Notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð.

 

Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi

Þessum texta geta notendur breytt eftir þörf

 

Umhverfisáætlun

Þessum texta geta notendur breytt eftir þörf

 

Viðbragðsáætlanir og rýming

Rýmingaráætlun grunnskólastigs má finna hér

Rýmingaráætlun leikskólastigs má finna hér