Skólinn

Stapaskóli er heildstæður skóli fyrir börn á aldrinum 18 mánaða til 16 ára í Dalshverfi í Reykjanesbæ. Fjöldi nemenda við fullsetinn skóla er um 500 á grunnskólaaldri og 120 á leikskólaaldri. Stefnt er að því að Stapaskóli verði hjarta hverfisins og muni þjóna íbúum grenndarsamfélagsins sem menningarmiðstöð. Í Stapaskóla fer fram metnaðarfullt skólastarf þar sem gleði, vinátta , samvinna og virðing eru þau gildi sem höfð eru að leiðarljósi.

Megineinkenni skólans er sveigjanleiki; í kennsluháttum, í nýtingu rýmis, í skipulagi vinnudags og skilum á milli skólastiga. Stapaskóli leggur áherslu á teymiskennslu, tækni og heildstæð verkefni sem eru samþætt í námsgreinar. Einnig er sérstök áhersla á sköpun og listir og verklegt nám ásamt nánum tengslum við nánasta umhverfi.

Í Stapaskóla er öflugt starfsfólk sem er að stíga sín fyrstu skref í því að skapa framsækið og fjölbreytt skólastarf fyrir börn og ungmenni í hverfinu. Starfsfólkið leggur sig fram við að skapa nemendum áhugahvetjandi verkefni sem eru samþætt í gegnum allar námsgreinar með skapandi verkefnaskilum. Við viljum að Stapaskóli sé öðruvísi og að það sé áhersla á framsýni. Megináhersla okkar er á sameiginlega sýn um framúrskarandi skólastarf þar sem nemendur fást við heildstæð viðfangsefni og verkefni sem tengjast áhugasviði þeirra. Allt umhverfi nemenda er hugsað með vellíðan þeirra að leiðarljósi. Þeir fá að velja sér námsaðstæður, þeir fá að velja sér tæki og tól sem henta við hvert viðfangsefni. Fjölbreyttar vinnuaðstæður felast í því að nemendur geta valið að sitja við mismunandi stærðir af borðum og stólum, valið að standa, vera á grjónapúða eða á teppi, setið í glugganum, tyllt sér á setkolla eða farið í hringinn í miðjunni þar sem teppi er á gólfi og bólstraðir bekkir við endann. Allt með hag og vellíðan þeirra að leiðarljósi.

Stapaskóli | Dalsbraut 11 | 260 Reykjanesbær

Sími: 420-1600

Netfang: stapaskoli@stapaskoli.is

Opnunartími: Skrifstofan er opin mánudaga til fimmtudaga frá 07:45-15:30 og föstudaga frá 07:45-14:00