Fréttir

Sumarlokun

Skrifstofa Stapaskóla lokar vegna sumarleyfa 2. júlí til 6. ágúst. Leikskólastig Stapaskóla fer í sumarleyfi miðvikudaginn 3. júlí og mæta aftur til starfa miðvikudaginn 7. ágúst kl.11.00. Starfsfólk Stapaskóla sendir nemendum og fjölskyldum sólakveðjur með von um yndislegar samverustundir í sumarleyfinu. Sumarkveðja Ó, blessuð vertu sumarsól, er sveipar gulli dal og hól og gyllir fjöllin himinhá og heiðarvötnin blá. Nú fossar, lækir, unnir, ár sér una við þitt gyllta hár. Nú fellur heitur haddur þinn um hvíta jökulkinn. Þú klæðir allt í gull og glans, þú glæðir allar vonir manns, og hvar sem tárin kvika' á kinn þau kyssir geislinn þinn. Þú fyllir dalinn fuglasöng, nú finnast ekki dægrin löng, og heim í sveitir sendirðu' æ úr suðri hlýjan blæ. Þú fróvgar, gleður, fæðir allt um fjöll og dali' og klæðir allt, og gangirðu' undir gerist kalt, þá grætur þig líka allt. Ó, blessuð vertu sumarsól, er sveipar gulli dal og hól og gyllir fjöllin himinhá og heiðarvötnin blá. Ingi T. Lárusson / Páll Ólafsson
Lesa meira

Sumargleði á leikskólastigi

Leikskólastig Stapaskóla hélt sumargleði miðvikudaginn 26. júní. Við byrjuðum gleðina strax í útiveru um morguninn en við fengum góðar gjafir frá foreldrafélaginu sem við tókum í notkun þá. Í hádegismat var svo boðið upp á pizzu og í síðdegishressingu fengu allir skúffuköku. Þeir sem vildu fengu andlitsmálningu og síðan fórum við á útisvæði þar sem starfsfólk leikskólans var með stöðvar. Þar var hægt að smíða, mála með vatni, blása sápukúlur og fara í reipitog svo eitthvað sé nefnt. Við þökkum foreldrafélaginu kærlega fyrir skemmtilega útidótið sem hefur vakið mikla ánægju meðal barnanna. Hér er svo hægt að sjá fleiri myndir frá deginum.
Lesa meira

Sjálfsmatsskýrsla Stapaskóla 2023 - 2024

Sjálfsmatsskýrsla Stapaskóla fyrir skólaárið 2023 - 2024 er komin út. Í skýrslu um sjálfsmat Stapaskóla er greint frá innra mati skólans þar sem tekið er mið af niðurstöðum sem liggja fyrir um innra starf og stefnu Stapaskóla. Matið er unnið af stjórnendum skólans á grunni upplýsinga sem safnað hefur verið. Niðurstöður eru bornar saman við markmið skólans, stefnu Reykjanesbæjar í fræðslumálum og metnar eru sterkar og veikar hliðar skólastarfsins Sjálfsmatsskýrsluna má finna hér!
Lesa meira

Skólaslit og útskrift 10. bekkjar

Skólaslit og útskrift 10. bekkjar fór fram föstudaginn 7. júní við hátíðlega athöfn á sal skólans og inni í tvenndum nemenda. Vorið og upphaf sumarsins er uppskeruhátíð nemenda og starfsfólks grunnskólanna en þá tökum við saman hvernig okkur gekk yfir árið. Á skólaslitum fá nemendur vitnisburð sinn og staðfestingu á vinnu sinni síðast liðna mánuði. Ásamt því að lesin eru upp hrósskjöl hvers nemenda þar sem bekkjarfélagar og starfsfólk, sem kemur að hópnum, setja fram styrkleika allra í fallegan heildstæðan texta. Í ávarpi skólastjóra var reifað á helstu áherslum Stapaskóla og því öfluga skólastarfi sem á sér stað. Hvernig starfsmenn eru sífellt að vinna að einkunnarorðum skólans í gegnum gildi til að auka vellíðan nemenda. Mannauður skólans er ótrúlega kraftmikill og faglegur og gerir sitt besta við að skapa aðstæður með leiða að sér aukna gleði í námi, aukna vellíðan nemenda og gefa hverjum og einum grunn til að vera stoltur af sjálfum sér. Að bera höfuð hátt við skólalok, að hafa trú á eigin getu og að hafa trú á því að draumar geta ræst. Á þessu skólaári höfum við öll gengið í gegnum ýmislegt saman. Við höfum upplifað skemmtilega viðburði, tekið þátt í spennandi verkefnum og leyst áskoranir. Við höfum líka lært að takast á við erfiðleika og stuðlað að betra samfélagi innan skólans okkar. Þið hafið öll sýnt styrk og seiglu, og fyrir það er ég mjög stolt. Í ár eru nokkrir starfmenn að kveðja og fara á vit nýtta ævintýra. Við viljum þakka þeim fyrir samfylgdina og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi. Þeir fengu afhenta rós í þakklætiskyni. Brynhildur Sigurðardóttir Hui Yingzi Shi Inga Margrét Þorsteinsdóttir Kamilla Huld Jónsdóttir Linda María Jensen Marc Mcausland Olga Sif Guðgeirsdóttir Rannveig Jónína Guðmundsdóttir Sveinbjörg Anna Karlsdóttir Valgerður Guðbjörnsdóttir Þórhildur Ólafsdóttir Á útskrift 10. bekkjar fór Gróa Axelsdóttir skólastjóri með ávarp og Katrín Alda Ingadóttir formaður nemendafélagsins flutti ávarp fyrir hönd nemenda. Umsjónarkennarar Hlín Bolladóttir og Linda María Jensen töluðu til nemenda og afhentu vitnisburð og Stapaskólatrefil til minningar um veru þeirra í Stapaskóla. Eftir athöfnina var nemendum, aðstandendum og starfsmönnum boðið til veglegrar veislu í Fjölnotasal. Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur á ýmsum sviðum. Framúrskarandi árangur á grunnskólaprófi: Katrín Alda sýnir mikinn metnað og dugnað í öllu námi. Hún setti sér skýr markmið og vann ötullega að þeim allt unglingastigið. Katrín Alda á einnig þakkir skyldar fyrir sitt framlag í þágu nemenda.   Una Bergþóra hefur sýnt mikinn metnað í öllu námi á unglingastiginu. Hún hefur sýnt að með skipulagi og skýrum markmiðum geti maður allt.   Verðlaun fyrir skapandi og gagnrýna hugsun:  Viktor Breki hefur sterkar skoðanir og ríka réttlætiskennd og hefur gaman af því að rökræða við bæði samnemendur og kennara. Hann er forvitinn, óhræddur við að leita svara og er tilbúinn til að skoða fjölbreyttar leiðir í verkefnavinnu.  Verðlaun fyrir þrautseigju og dugnað Aðalheiður María hefur sýnt mikinn metnað í námi og þrautseigju við allar áskoranir. Hún setti sér snemma ákveðin markmið og hefur einbeitt sér að því að ná þeim. Hún sýnir einstaka vinnusemi og dugnað í öllu daglegu starfi.  Verðlaun fyrir framúrskarandi vinnu í þágu nemenda:  Kolbrún Dís hefur unnið ötullega að ýmsu félagsstarfi í þágu nemenda, bæði í nemendaráði skólans og í unglingaráði Fjörheima. Hún tekur virkan þátt í öllu sem fer fram og leggur sig fram við að efla félagslífið í skólanum.  Verðlaun fyrir mestu framfarir í lestri:   Elmar Hrafn hefur sýnt miklar framfarir í lestri á síðustu árum, bæði hvað varðar leshraða og lesfimi. Það er einstaklega ánægjulegt að hlusta á Elmar Hrafn lesa en hann nær að gæða textann lífi með ólíkum blæbrigðum og leiklestri.  Skólaíþróttir:   Katrín Alda er vinnusöm, jákvæð og flottur leiðtogi í íþrótta- og sundtímum. Hún smitar gleðinni út frá sér og hefur því jákvæð áhrif á samnemendur sína. Katrín Alda hefur sýnt framúrskarandi árangur í skólaíþróttum á skólagöngu sinni. Hún  er ávallt kurteis og sýnir virðingu í garð samnemenda og starfsfólks. Jens Ingvi  hefur sýnt framúrskarandi árangur í skólaíþróttum. Hann hefur verið jákvæður og er með góða mætingu bæði í sundi og íþróttum. Jens Ingvi sýnir kurteisi og virðingu í garð íþróttakennara. Hann hefur verið mikilvægur hlekkur í skólahreystiliði skólans síðastliðin tvö ár.   List- og verkgreinar:   Saga Björg Ingadóttir hefur sýnt framúrskarandi árangur í sviði myndlistar í vetur en hefur jafnframt sýnt góðan árangur í listgreinum almennt. Hún er skapandi, vinnusöm og með afar frjóa hugsun. Hæfileikar Sögu Bjargar á sviði listgreina koma fram áreynslulaust sem og listverk hennar. List hennar kemur að innan og verk hennar bera þess merki. Hún hefur verið afar opin fyrir að öðlast nýja þekkingu og færni sem hún hefur svo nýtt sér við vinnu sína. Saga Björg hefur tekið miklum framförum og þar af leiðandi vaxið mikið í listrænum þroska. Er það von list- og verkgreinakennara að hún haldi fast í sköpunarkraft sinn og haldi áfram á þeirra vegferð sem hún hefur verið á í vetur.   Aðalheiður María  er listræn og sýnir frumkvæði og er sjálfstæði í verkefnavali. Hún hefur skýra sýn og góða þekkingu á vinnu með verkfæri og efni. Aðalheiður María er vandvirk og vinnusöm og leggur metnað í allan frágang. Er það einlæg von list- og verkgreinakennara að hún haldi fast í sköpunarkraft sinn og haldi áfram að sinna listhneigð sinni.    
Lesa meira

Útskrift elstu barna á leikskólastigi

Miðvikudagurinn 29. maí var stór dagur hjá elstu börnum leikskólastigs Stapaskóla en þann dag útskrifuðust 23 nemendur við hátíðlega athöfn í fjölnotasal skólans. Leikskólinn útskrifar börn af 1. skólastiginu en í haust fara þau á næsta skólastig sem er grunnskólinn. Nemendurnir voru búin að æfa þrjú lög sem þau sungu á sviði fyrir foreldra sína og starfsfólk. Pálína Hildur aðstoðarskólastjóri hélt stutta ræðu og fengu allir nemendur útskriftarskjal ásamt rós frá skólanum. Eftir athöfnina bauð skólinn börnum og foreldrum upp á léttar veitingar. Við óskum útskriftarnemendum okkar og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með áfangann. Allar stundir okkar hér er okkur ljúft að muna. Fyllstu þakkir flytjum þér takk fyrir samveruna.
Lesa meira