Fréttir

Málþing í Hljómahöll um snjallsímanotkun í grunnskólum

Lýðheilsu- og Menntaráð Reykjanesbæjar munu halda málþing í Hljómahöll þann 27. september nk. undir yfirskriftinni „Snjallsímanotkun og samfélag ungmenna í grunnskólum Reykjanesbæjar“. Helsta markmið með málþinginu er að ræða opinskátt um snjallsímanotkun og samfélagsmiðla með það í huga að stuðla að bættri líðan barna og ungmenna. Með þessu samtali getum við sem samfélag vonandi fundið farsæla lausn á því hvernig best er að haga umgengni við snjallsíma með hag barnanna okkar í forgrunni. Málþingið er milli kl. 14-17 og hefst með fyrirlestrum um málefnið en endar með verkefnavinnu gesta. Fyrirlesarar eru eftirfarandi aðilar: Bergþóra Þórhallsdóttir, verkefnastjóri í upplýsingatækni hjá Kópavogsbæ Daníel Örn Gunnarsson, framhaldsskólanemi Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar Gróa Axelsdóttir, skólastjóri Stapaskóla Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands Skúli Bragi Geirdal, verkefnastjóri hjá Fjölmiðlanefnd Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
Lesa meira

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Þriðjudaginn 12. september fór fram Ólympíuhlaup ÍSÍ hjá Stapaskóla. Nemendur stóðu sig einstaklega vel og lögðu mikið á sig. Hlaupið var ræst klukkan 10:20 og stóð til klukkan 11:20. Krakkarnir áttu að hlaupa eins marga hringi og þau gátu á þessum klukkutíma. Við höfum búið til sérstakan Ólympíuhlaups hring, en hann er tæplega 1,8 km. Veitt voru sérstök viðurkenningarskjöl í eftirfarandi flokkum 1.-4. bekkur 3 hringir (5km) eða meira. 5.-10. bekkur 6 hringir (10,5 km) eða meira Einnig voru veitt sérstök verðlaun fyrir þann árgang sem fór að meðaltali flesta kílómetra. Í ár var það Sjöundi bekkur, sem að fór flesta kílómetra. Stapaskóli hljóp í heild sinni 1555km. Dagurinn gekk virkilega vel fyrir sig, þar sem bæði nemendur og veður stóðu sig frábærlega. Mbkv Íþróttakennarar
Lesa meira

Leikgleði í gegnum sögur og söng

Í vor fengu Leikskólar Reykjanesbæjar sem eru ellefu og bókasafnið styrk úr Sprotasjóð til að vinna sameiginlega að verkefninu Leikgleði í gegnum sögur og söng. Í September fengu starfsfólk leikskólastigs Stapaskóla námskeið með Birte Harksen leikskólakennara sem hefur unnið með málörvandi aðferðir til margra ára. Birte er sérfræðingur verkefnisins og verkefnastjóri verkefnisins er Ólöf Kristín Guðmundsdóttir kennsluráðgjafi á Menntasviði Reykjanesbæjar. Markmið verkefnisins er að styrkja hugtakaskilning, orðaforða, hlustunarskilning og frásagnarhæfni leikskólabarna í Reykjanesbæ með málörvandi aðferðum sem byggja á leik, söng og virkni. Aðferðirnar eru jafnframt til þess fallnar að auka samkennd og styrkja félagstengsl milli barna. Þannig er stuðlað að jafnvægi, öryggi, sjálfstrausti, tjáningarfærni og almennt andlegri farsæld þeirra, enda gefur augaleið að barn sem á auðvelt með að skilja aðra, getur og þorir að tjá sig og líður betur en barni sem á í erfiðleikum með það. Þess má geta að í leikskólum Reykjanesbæjar eru um 30% barna af erlendum uppruna. Því er sérstök ástæða til að leggja áherslu á málörvun til að fyrirbyggja skerta framtíðarmöguleika eða jafnvel félagslega jaðarsetningu síðar á lífsleiðinni. Niðurstöður nýlegra íslenskra rannsókna benda til að leikskólabörn með annað móðurmál en íslensku nái almennt ekki góðum tökum á málinu og hafi oft lítinn og einhæfan orðaforða. Þetta er vandamál sem best er að bregðast við sem fyrst á skólagöngunni þar sem það verður erfiðara við að eiga eftir því sem á líður. Aðferðirnar sem beitt er í verkefninu gagnast vel í þessu samhengi. Þær eru þó ekki sérsniðnar fyrir þennan hóp heldur er þeim ætlað að stuðla að aukinni málfærni og tilfinningalegri farsæld allra barna, óháð því hvort þau séu fjöltyngd eða ekki.
Lesa meira

Skólaþing

Lesa meira

Löggan kom með Blæ

Í síðustu viku fengum við óvænta heimsókn á leikskólastig Stapaskóla. Lögreglan var við venjubundið eftirlit við skólann og ákvað að kíkja inn á flottu krakkana á leikskólastigi Stapaskóla. Ekki nóg með það heldur færðu þau krökkunum á Völusteini Blæ litla, bangsa sem þau munu eiga í leikskólanum alla sína leikskólagöngu. Leikskólinn okkar er Vináttuskóli en Vinátta er forvarnarverkefni sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa að og gefa út í samstarfi við Red Barnet – Save the Children í Danmörku og Mary Fonden samtökin. Markmið Vináttu er að: efla félagsfærni, styrkja sjálfsmynd, stuðla að jákvæðum samskiptum, efla samstöðu og að koma í veg fyrir einelti innan barnahópsins. Jafnframt byggir verkefnið á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem eru í samræmi við Barnasáttmálann, heimsmarkmiðin og aðalnámskrá. Til að ná sem mestum árangri er mikilvægt að allir sem koma að börnunum séu samstíga, þekki Vináttu og tileinki sér gildin sem hugmyndafræðin byggir á en þau eru: virðing, hugrekki, umburðarlyndi og umhyggja. Þar skipta foreldrar einna mestu máli enda eru þeir fyrirmyndir barna sinna og spegla þeirra viðhorf, framkomu og samskipti. Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu, honum fylgja litlir hjálparbangsar sem ætlaðir eru hverju barni sem tekur þátt í Vináttu. Blær og hjálparbangsarnir tákna traust og vináttu og er ætlað að minna börnin á að passa upp á aðra og að vera góður félagi allra. Litli Blær á heima í skólanum en börnin fá hann með sér heim að lokinni leikskólagöngu.
Lesa meira