Hugvekja fyrir Desember

Í Stapaskóla vinnum við markvisst að því að skapa nemendum gott námsumhverfi sem veitir þeim tilfingalegt öryggi í anda Heillaspora. Með þessum pistlu viljum við veita innsýn inn í hvernig við í sameiningu getum skapað öryggi fyrir börnin í desember.

Að skapa öryggi í desember

Desember er hátíðlegur en líka óvenjulegur í skólastarfi. Dagarnir eru fullir af uppbrotum, jólastemmningu og óhefðbundnum verkefnum sem geta verið skemmtileg fyrir mörg börn en krefjandi fyrir önnur. Börn sem glíma við kvíða, skynúrvinnsluvanda, einhverfu eða hegðunarvanda finna oft fyrir auknu álagi þegar venjur breytast. Þau geta orðið óróleg, lokað sig af eða brugðist við með hegðun sem virðist óskiljanleg. Það er ekki vegna þess að þau vilja vera erfið, heldur vegna þess að þau upplifa óöryggi.

Foreldrar geta haft mikil áhrif á hvernig börn takast á við þessar aðstæður. Fyrst og fremst skiptir máli að skapa ró heima. Byrjið daginn í kyrrð, gefið barninu tíma til að vakna án mikils álags. Gott er að ræða við barnið um daginn fram undan: hvað gerist í skólanum, hvort eitthvað óvenjulegt sé á dagskrá, og hvernig það getur undirbúið sig. Börn sækja í fyrirsjáanleika, þannig að einföld yfirlit yfir daginn og skýr svör draga úr óvissu.

Ef barnið sýnir merki um kvíða eða pirring, reynið að mæta tilfinningunni með rólegu samtali. Í stað þess að segja „Hættu þessu væli“ er betra að segja „Það er eins og eitthvað sé að trufla þig, geturðu sagt mér hvað það er?“ Þannig fær barnið tækifæri til að tjá sig og finna öryggi. Forðist mikla ákveðni og hótanir – þær auka aðeins á stressið. Börn sem upplifa öryggi heima eiga auðveldara með að takast á við óvissu í skólanum.

Matur og svefn skipta líka máli. Börn sem eru svöng eða þreytt eiga erfiðara með að halda fókus og stjórna tilfinningum. Tryggið að barnið fái næringu og hvíld. Ef mögulegt er, sendið með aukasnakk eða ávöxt í skóla, sérstaklega á dögum sem eru óhefðbundnir.

Að lokum er mikilvægt að hrósa fyrir litla sigra. Ef barnið tekst á við daginn án mikils álags, segið það upphátt: „Ég er stoltur af þér, þú stóðst þig vel í dag.“ Hrós styrkir sjálfstraust og dregur úr neikvæðum tilfinningum.

Með ró, fyrirsjáanleika og stuðningi heima hjálpið þið barninu að finna jafnvægi í annasömum og óvenjulegum mánuði.

10 ráð fyrir foreldra

  1. Byrjið daginn í ró – gefið barninu tíma til að vakna án mikils álags og forðist stress í morgunrútínu.
  2. Ræðið daginn fram undan – segið hvað er á dagskrá í skólanum, sérstaklega ef eitthvað óvenjulegt er fyrirhugað.
  3. Tryggið fyrirsjáanleika – einföld yfirlit yfir daginn og skýr svör draga úr óvissu og kvíða.
  4. Mætið tilfinningum barnsins – ef það er kvíðið eða pirrað, spyrjið rólega: „Hvað er að trufla þig?“.
  5. Forðist skömm og hótanir – þær auka stress og gera aðstæður erfiðari.
  6. Gætið næringar og svefns – svengd og þreyta gera börn viðkvæmari fyrir álagi.
  7. Sendið með aukasnakk eða ávöxt – sérstaklega á óhefðbundnum dögum til að koma í veg fyrir orkuskort.
  8. Hrós fyrir litla sigra – ef barnið tekst á við daginn, segið það upphátt: „Ég er stoltur af þér.“
  9. Haldið rólegu umhverfi heima – minnkið hávaða og sjónrænt áreiti þegar barnið þarf að slaka á.
  10. Vertu fyrirmynd í ró – börn spegla foreldra; róleg framkoma smitar út frá sér.