Fréttir & tilkynningar

25.11.2021

Þemadagar í nóvember

Dagana 17.-19. nóvember héldum við þemadaga tileinkaða Barnasáttmálanum. Nemendur á öllum stigum fengu fræðslu um Barnasáttmálann og unnu fjölbreytt verkefni. Á grunnskólastigi unnu nemendur á stöðvum þar sem unnið var með ýmsar greinar Barnasáttmálans. Nemendum í 1.-4. bekk og í 5.-10. bekk var skipt í hópa þvert á árganga.
24.11.2021

Dagur íslenskrar tungu

Þann 16. nóvember var haldið upp á dag íslenskrar tungu í Stapaskóla þar sem nemendur komu fram á sal í fjölbreyttum skemmtiatriðum. Dagurinn er haldinn ár hvert á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Skáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson (1807-1845) var með lærðustu mönnum síns tíma. Hann var með guðfræðipróf, stundaði nám í lögfræði og lauk síðar prófi í náttúruvísindum frá Kaupmannahafnarháskóla. Jónas fór í rannsóknarferðir um Ísland og skrifaði dagbækur og skýrslur um íslenska náttúru. Auk vísindastarfa var Jónas virkur í útgáfu tímaritsins Fjölnis, hann orti fjölmörg kvæði, samdi sögur og þýddi erlend skáldverk á íslenska tungu. Í myndasafni skólans má sjá myndir af atriðum nemenda skólans.
24.11.2021

9. og 10. bekkur tók þátt í samræðuverkefni um íslenska tungumálið

Nýlega tóku nemendur í 9. og 10. bekk þátt í samræðuverkefni um íslenska tungumálið. Nemendur fengu fjölda staðreynda um íslenskt tungumál sem þeir ræddu og flokkuðu í þrjá flokka: + Já, ég er sammála + Nei, ég er ósammála + Bæði og… (ég get verið sammála í ákveðnum aðstæðum og ósammála í öðrum). Þegar allar staðreyndirnar höfðu verið flokkaðar færðu nemendur rök fyrir skoðunum sínum og kennari safnaði hugmyndunum saman. Umræðurnar voru dregnar saman í pistil sem Abdallah, Gabríela og Matthildur fluttu á sal Stapaskóla á degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2021. Í kjölfarið unnu þeir upptöku og gáfu leyfi til að birta hana á netinu. Verkefnið er samið af Jóhanni Björnssyni, heimspekikennara í Réttarholtsskóla og það má nálgast í námsefni hans á vefnum: https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/sextiuogagtta_aefingar/59/#zoom=z

Það er alltaf líf og fjör í skólanum