Fréttir & tilkynningar

10.05.2021

Skólastarf frá 10. maí

Skipulag skólastarfs frá mánudeginum 10. maí er með eftirfarandi hætti. Skipulagið byggir á reglugerð um takmörkun á skólastarfi sem gildir til og með 26. maí 2021. Tilhögun skólastarfsins getur verið ólíkt milli skóla þar sem aðstæður eru mismunandi. Skipulagið byggist á eftirfarandi þáttum: • Nemendur í 1.–10. bekk fá kennslu samkvæmt stundaskrá. En samkvæmt reglugerð eru þeir undanþegnir 1 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 100 nemendur í 1.–10. bekk í hverju rými. Blöndun milli hópa innan skóla er heimil. • 50 starfsmenn mega vera saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Sé starfsfólki ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun sín á milli og gagnvart nemendum ber þeim að nota andlitsgrímur. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu og tónlistarskóla. • Frístundaheimilin verða opin til kl. 16:15. • Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem í matsal, við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að starfsfólk notist við andlitsgrímu. • Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrar, upplestrarkeppnir o.fl., eru heimilar með ofangreindum takmörkunum. • Foreldrar og aðstandendur mega koma inn í skólabyggingar en skulu gæta að sóttvörnum og bera andlitsgrímur ef ekki er hægt að viðhafa 1 metra nálægðarmörk. • Aðrir en starfsmenn sem koma inn í grunnskóla, svo sem vegna vöruflutninga skulu halda 1 metra takmörkun, bera andlitsgrímur og gæta sóttvarnaráðstafana. Við hvetjum alla til þess að gæta að persónulegum smitvörnum, minnum á mikilvægi handþvottar og notkun spritts. Við erum í þessu saman.
07.05.2021

Áfram Stapaskóli!

Föstudaginn 7.maí tók Skólahreystilið Stapaskóla loka æfingu fyrir keppnina sem fer fram miðvikudaginn 12.maí. Nemendur á grunnskólastigi fjölmenntu á hreystivöllinn og voru að hvetja keppnisliðið áfram. Skólahreystilið Stapaskóla er skipað nemendum úr 8. og 9.bekk og er eftirfarandi: Upphífur og dýfur: Gunnar Ragnarsson (9.bekkur) Armbeygjur og hanga: Una Rós Gísladóttir (8.bekkur) Hraðaþraut: Þórdís Eik Adolfsdóttir (8.bekkur) og Leonard Ben Evertsson (8.bekkur) Varamenn: Íris Arna Ragnarsdóttir (8.bekkur) og Abdallah Rúnar Awal (8.bekkur). Hvetjum alla til þess að fylgjast með beinni útsendingu á RÚV miðvikudaginn 12.maí klukkan 20:00
07.05.2021

Árshátíð Stapaskóla

Árshátíð Stapaskóla fóru allar þrjár fram á sal skólans miðvikudaginn 14. apríl. Hátíðin heppnaðist í alla staði afar vel og gleði ríkti hjá nemendum þegar þau tóku þátt í sýningunum og sýndu afrakstur undanfarinna vikna. Eins og við var að búast sýndu nemendur bæði fjölbreytt og glæsileg atriði með leik, söng og dansi. Að þessu sinni var ekki hægt að bjóða foreldrum eða öðrum aðstandendum til okkar að horfa á vegna sóttvarnaraðgerða en öll atriðin voru tekin upp og myndbönd búin til sem hafa verið send til foreldra. Það var af ýmsu að taka þegar að skemmtiatriðunum kom. Á árshátíð 1. – 3. bekkjar var mikið um söngatriði auk þess sem nemendur í 2. bekk spiluðu lagið Blokklingarnir á blokkflauturnar sínar. Hjá 4. – 6. bekk var leikurinn viðamikill en þar ber helst að nefna nemendur í 5. bekk sem stigu á stokk með frumsamið leikrit um árið 2020 sem sló í gegn. Nemendur í 4. bekk voru einnig með frumlegt atriði þar sem áhugamál nemenda voru í aðalhlutverki. Unglingastigið var ekki síðra en nemendur í 7. bekk sýndu skemmtilegt myndband þar sem m.a. var verið að stríða starfsfólki skólans, nemendur 8. bekkjar voru með leikþátt og tvær stúlkur í 9. bekk sýndu frumsaminn dans en þær lentu einmitt í þriðja sæti í danskeppni Samfés fyrr í vetur. Leiklistarval skólans sýndi einnig afrakstur vetrarins en þau tóku stutt sýnishorn úr leikritinu Aladdín sem þau hafa verið að æfa í vetur. Fleiri myndir frá árshátíðinni má finna hér.

Það er alltaf líf og fjör í skólanum