Fréttir & tilkynningar

16.09.2021

List fyrir alla

Í dag fengu nemendur í 1. – 4. bekk heimsókn frá Leikhópnum Lottu sem er hluti af List fyrir alla. Hlutverk List fyrir alla er að velja og miðla listviðburðum um allt land og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum. Að þessu sinni eru það listafólkið í Leikhópnum Lottu sem sýna Pínulitlu gulu hænuna sem er sérstaklega hugsuð fyrir grunnskóla. Um er að ræða skemmtilegt atriði sem unnið er upp úr Litlu gulu hænunni sem Leikhópurinn sýndi árið 2015. Fjórir þekktir Lottu leikarar mættu á svæðið til okkar í morgun og sýndu frábært 25 mínútna skemmtiatriði prýtt fallegum boðskap, frábærum húmor, leik, söng og dansi. Virkilega vel heppnað og skemmtilegt. Við þökkum Leikhópnum Lottu fyrir frábæra skemmtun.
15.09.2021

Ólympíuhlaup ÍSÍ 202

Miðvikudaginn 8.september fór fram Ólympíuhlaup ÍSÍ hjá Stapaskóla. Nemendur stóðu sig einstaklega vel og lögðu mikið á sig. Á yngsta stigi hlupu nemendur frá klukkan 8:45-9:45 og náðu 13 nemendur að hlaupa 6,5 km eða lengra. Á miðstigi og elsta stigi hlupu nemendur frá klukkan 10:10-11:30. Á miðstigi náðu 13 nemendur að hlaupa 10 km eða lengra og á elsta stigi náðu 4 nemendur að hlaupa 10 km eða lengra. Í keppni milli árganga var það 4.bekkur sem sigraði á yngsta stigi, 6.bekkur á miðstigi og 9.bekkur á elsta stigi. Það var gaman að sjá gleðina í nemendum þegar þau voru að hlaupa og heppnaðist hlaupið mjög vel.
03.09.2021

Heimsókn frá Bunavörnum Suðurnesja.

Elstu nemendur leikskólastigs fengu heimsókn frá Bunavörnum Suðurnesja. Markmiðið með heimsókninni var að fræða börnin um brunavarnir. Logi og Glóð er forvarnarverkefni þar sem slökkviliðsmenn koma og spjalla við nemendur um eldvarnir á heimilinu og horft er á stutta mynd um slökkviálfana Loga og Glóð. Nemendur fá að sjá slökkviliðsmanninn í gallanum, með reykgrímu og fá að handleika stútinn á brunaslöngunni. Nemendur eru þá orðnir aðstoðarmenn slökkviliðsins og í því felst að þau fara reglulega um skólann og yfirfara brunavarnir. Nemendur fá svo viðurkenningarskjal í lok skólaárs.

Það er alltaf líf og fjör í skólanum