Fréttir

Málþing Stapaskóla 2021

Málþing Stapaskóla Uppgjör teymiskennslu skólaárið 2021 – 2022 Í dag var starfsdagur í Stapaskóla þar sem allir starfsmenn tóku þátt í málþingi sem fól í sér að gera upp starf vetrarins þar sem við vorum svo lánsöm að vera með Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Háskóla Íslands í farabroddi. Ingvar leiddi okkur áfram í því að ganga í takt í teymiskennslu og innleiða þá frábæru kennsluaðferð. Teymin kynntu eitt til tvö verkefni sem lögð voru fyrir í vetur í anda teymiskennslu og má með sanni segja að gróska, fjölbreytni, sköpun og samvinna einkenni skólastarfið hér í Sapaskóla. Hér eru teymin að þróa skólastarfið í anda teymiskennslu, með samþættingu námsgreina, með hringekjum, aldursblöndun og flæði í smiðjum þar sem nemendur fá að njóta sín. Starfsfólkið leggur sig fram við að skapa umhverfi svo nemendur fái að blómstra og um leið að gera skólastarfið skemmtilegt. Það var einkennandi að heyra hvernig teymin hafa lagt sig fram við að nýta sína styrkleika, að slípa saman „teymishjónabandið“ sem hefur leitt af sér stórkostleg verkefni og samvinnu. Eftir kynningarnar fóru allir í kaffihúsastörf þar sem unnið var út frá rýni í vinnu vetrarins og um leið velt fyrir sér hvar við verðum stödd innan 5 ára. Við í Stapaskóla erum nú að ljúka okkar fyrsta skólaári í nýrri byggingu sem samrekinn leik- og grunnskóli. Að skapa slíkt umhverfi þar sem flæði er á milli skólastiga og tækifærin óteljandi fyllir starfsfólkið af gleði og áhuga fyrir því að móta einstaklinga sem fara fullir af sjálfstrausti út í lífið.
Lesa meira

Annar í hvítasunnu og starfsdagur, 24. og 25. maí.

Kæru foreldrar og forráðamenn. Framundan er hvítasunnuhelgin og er annar í hvítasunnu mánudaginn 24. maí, þá er almennur frídagur. Þriðjudaginn 25. maí er svo skipulagsdagur í Stapaskóla. Allir nemendur eiga frí þessa daga og frístundaheimilið Stapaskjól er lokað.
Lesa meira

Vettvangsferð í Duus hús

Sælir kæru foreldrar og velunnarar Stapaskóla. Börn, fædd 2016 á Álfasteini, fóru í vettvangsferð í Duus Hús. Við sáum listahátíð barna í Reykjanesbæ. Þar var mikið af fallegum og frumlegum verkum eftir börn allstaðar að úr bænum. Við mælum eindregið með því að foreldrar líti við með börnin sín. Einnig eru fleiri sýningar í húsinu, leikfangasýning sem við sáum líka og vakti mikla lukku. Svo var leikið og hlaupið fyrir utan Keflavíkurkirkju. Kveðja frá Álfasteini
Lesa meira

Fyrsta útskrift Stapaskóla.

Í síðustu viku var stór dagur. Þá fór fram fyrsta formlega útskrift Stapaskóla. Voru það elstu nemendur af leikskólastigi sem útskrifuðust við hátíðlega athöfn í fjölnotasal Stapaskóla. Elstu nemendur voru búin að æfa þrjá söngva sem þau sungu á sviði fyrir foreldra sína og starfsfólk. Gróa skólastjóri hélt stutta ræðu og fengu allir nemendur útskriftarskjal ásamt Ösp til að gróðursetja frá skólanum. Tréð vísar í merki skólans sem er mynd af tré sem er sífellt að vaxa og bæta við sig þekkingu. Það er gott veganesti fyrir áframhaldandi nám í skólanum. Eftir athöfnina buðu nemendur foreldrum sína upp á kaffi, kökur og létt spjall. Við óskum útskriftarnemendum okkar og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með áfangann. Allar stundir okkar hér Er okkur ljúft að muna. Fyllstu þakkir flytjum þér takk fyrir samveruna.
Lesa meira

3. sæti í riðlakeppninni !

Miðvikudaginn 12. maí tók Stapaskóli þátt í sinni fyrstu undankeppni í Skólahreysti. Stapaskóli var í 7. riðli og stóðu sig svakalega vel og enduðu í 3. sæti. Gunnar Ragnarsson tók 36 upphífur og 35 dýfur. Una Rós Gísladóttir tók 28 armbeygjur og hékk í 2:47 mínútur. Þórdís Eik Adolfsdóttir og Leonard Ben Evertsson fóru hraðabrautina á 2:39 mínútur. Glæsileg frumraun hjá þessum flottu nemendum! Til hamingju með flottan árangur! Áfram Stapaskóli!
Lesa meira

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2021

Fræðsluráð Reykjanesbæjar efnir árlega til hvatningarverðlauna fyrir verkefni í skólastarfi sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni. Verðlaunin eru veitt til einstaka kennara, kennarahópa og starfsmanna í leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem standa að baki verkefnunum. Allir sem vilja geta sent inn ábendingar um áhugaverð verkefni sem hafa nýst skólasamfélaginu og hafa verið unnin á yfirstandandi skólaári. Skila þarf inn tilnefningum fyrir 28. maí nk. https://www.reykjanesbaer.is/.../hvatningarverdlaun... Hérna er hlekkur á eyðublaðið til þess að tilnefna: https://forms.office.com/r/UqEKEfibWv
Lesa meira

Skólastarf frá 10. maí

Skipulag skólastarfs frá mánudeginum 10. maí er með eftirfarandi hætti. Skipulagið byggir á reglugerð um takmörkun á skólastarfi sem gildir til og með 26. maí 2021. Tilhögun skólastarfsins getur verið ólíkt milli skóla þar sem aðstæður eru mismunandi. Skipulagið byggist á eftirfarandi þáttum: • Nemendur í 1.–10. bekk fá kennslu samkvæmt stundaskrá. En samkvæmt reglugerð eru þeir undanþegnir 1 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 100 nemendur í 1.–10. bekk í hverju rými. Blöndun milli hópa innan skóla er heimil. • 50 starfsmenn mega vera saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Sé starfsfólki ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun sín á milli og gagnvart nemendum ber þeim að nota andlitsgrímur. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu og tónlistarskóla. • Frístundaheimilin verða opin til kl. 16:15. • Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem í matsal, við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að starfsfólk notist við andlitsgrímu. • Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrar, upplestrarkeppnir o.fl., eru heimilar með ofangreindum takmörkunum. • Foreldrar og aðstandendur mega koma inn í skólabyggingar en skulu gæta að sóttvörnum og bera andlitsgrímur ef ekki er hægt að viðhafa 1 metra nálægðarmörk. • Aðrir en starfsmenn sem koma inn í grunnskóla, svo sem vegna vöruflutninga skulu halda 1 metra takmörkun, bera andlitsgrímur og gæta sóttvarnaráðstafana. Við hvetjum alla til þess að gæta að persónulegum smitvörnum, minnum á mikilvægi handþvottar og notkun spritts. Við erum í þessu saman.
Lesa meira

Áfram Stapaskóli!

Föstudaginn 7.maí tók Skólahreystilið Stapaskóla loka æfingu fyrir keppnina sem fer fram miðvikudaginn 12.maí. Nemendur á grunnskólastigi fjölmenntu á hreystivöllinn og voru að hvetja keppnisliðið áfram. Skólahreystilið Stapaskóla er skipað nemendum úr 8. og 9.bekk og er eftirfarandi: Upphífur og dýfur: Gunnar Ragnarsson (9.bekkur) Armbeygjur og hanga: Una Rós Gísladóttir (8.bekkur) Hraðaþraut: Þórdís Eik Adolfsdóttir (8.bekkur) og Leonard Ben Evertsson (8.bekkur) Varamenn: Íris Arna Ragnarsdóttir (8.bekkur) og Abdallah Rúnar Awal (8.bekkur). Hvetjum alla til þess að fylgjast með beinni útsendingu á RÚV miðvikudaginn 12.maí klukkan 20:00
Lesa meira

Árshátíð Stapaskóla

Árshátíð Stapaskóla fóru allar þrjár fram á sal skólans miðvikudaginn 14. apríl. Hátíðin heppnaðist í alla staði afar vel og gleði ríkti hjá nemendum þegar þau tóku þátt í sýningunum og sýndu afrakstur undanfarinna vikna. Eins og við var að búast sýndu nemendur bæði fjölbreytt og glæsileg atriði með leik, söng og dansi. Að þessu sinni var ekki hægt að bjóða foreldrum eða öðrum aðstandendum til okkar að horfa á vegna sóttvarnaraðgerða en öll atriðin voru tekin upp og myndbönd búin til sem hafa verið send til foreldra. Það var af ýmsu að taka þegar að skemmtiatriðunum kom. Á árshátíð 1. – 3. bekkjar var mikið um söngatriði auk þess sem nemendur í 2. bekk spiluðu lagið Blokklingarnir á blokkflauturnar sínar. Hjá 4. – 6. bekk var leikurinn viðamikill en þar ber helst að nefna nemendur í 5. bekk sem stigu á stokk með frumsamið leikrit um árið 2020 sem sló í gegn. Nemendur í 4. bekk voru einnig með frumlegt atriði þar sem áhugamál nemenda voru í aðalhlutverki. Unglingastigið var ekki síðra en nemendur í 7. bekk sýndu skemmtilegt myndband þar sem m.a. var verið að stríða starfsfólki skólans, nemendur 8. bekkjar voru með leikþátt og tvær stúlkur í 9. bekk sýndu frumsaminn dans en þær lentu einmitt í þriðja sæti í danskeppni Samfés fyrr í vetur. Leiklistarval skólans sýndi einnig afrakstur vetrarins en þau tóku stutt sýnishorn úr leikritinu Aladdín sem þau hafa verið að æfa í vetur. Fleiri myndir frá árshátíðinni má finna hér.
Lesa meira

Litla upplestrarkeppnin

Fimmtudaginn 29. apríl var Litla upplestrarkeppnin haldin hátíðleg hér í Stapaskóla. Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur að vori. Þátttakendur eru nemendur í 4. bekk. Litla upplestrarkeppnin hófst í Hafnarfirði haustið 2010 og byggir á markmiðum Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin er árlega í 7. bekk. Meginmarkmið keppninnar er að nemendur flytji íslenskt mál sjálfum sér og öðrum til ánægju og að þeir viðhafi vandvirkni að leiðarljósi við flutninginn. Keppnishugtakið felur eingöngu í sér það markmið að keppa við sjálfan sig, að verða betri í dag enn í gær. Lögð er áhersla á betri árangur í lestri, bætt munnleg tjáning og öryggi í framkomu þegar lesa þarf fyrir framan hóp af fólki. Allir nemendur tóku þátt og hafa æft undir handleiðslu umsjónarkennara sinna í vetur. Nemendur fluttu margskonar texta, bæði ljóð og sögur og lásu ýmist einstaklingslega eða sem hluti af hóplestri. Það er alltaf stórt skref fyrir nemendur að standa fyrir framan hóp af fólki og lesa upp og það stóðu sig allar mjög vel. Á milli upplestra steig Gabríel Örn nemandi í 4. bekk á stokk og flutti tónlistaratriði. Vegna aðstæðna var ekki hægt að bjóða foreldrum á hátíðina, en hún var tekin upp og mun verða aðgengileg foreldrum barnanna. Nemendur í 3. bekk voru áhorfendur á hátíðinni líkt og venja er enda þeir sem munu taka þátt í þessu verkefni að ári og gott fyrir þau að sjá um hvað þetta snýst. Nemendur stóðu sig afar vel og voru sér, skólanum og foreldrum sínum til mikils sóma.
Lesa meira