Menntabúðir

Í Stapaskóla starfa einstaklingar með víðtæka þekkingu og reynslu. Starfsfólk ígrundar störf sín reglulega, leitar sér nýrrar þekkingar og er stöðugt í viðleitni til að læra og gera betur. Við höfum leitast við að skapa hér menningu lærdómssamfélags og til þess reynt að skapa sem flest tækifæri til að læra hvert af öðru. Menntabúðir hafa verið haldnar meðal starfsfólks skólans í nokkur skipti og voru einar slíkar sl. mánudag. Fengum við þá kynningu frá henni Brynhildi, umsjónarkennara í 10. bekk, á forritinu Canva. Virkilega áhugaverð kynning en með Canva opnast ótal möguleikar í framsetningu á efni, kynningum, auglýsingum o.fl.  Svo voru þær Heiða Björg,  umsjónarkennari í 9. bekk og Brynja, náttúrufræðikennari, með kynningu á Breakout Edu þar sem við fengum leysa Sherlock Holmes þraut í kapp við tímann. Breakout Edu svipar til „escape“ leikja en þar er markmiðið að leysa í sameiningu ýmsar þrautir og opna ákveðin kassa áður en tíminn rennur út. Kennarar geta sjálfir útbúið þrautirnar en einnig eru til fjölmargar fullbúnar þrautir á netinu. Það var virkilega skemmtilegt að kljást við þessa Sherlock Holmes þraut en þess má geta öllum hópum tókst að leysa þrautina en engum þó áður en tíminn var úti. Brynhildi, Heiðu Björgu, Brynju og Sveinbirni, tölvuumsjónarmanni, sem einnig kom að menntabúðunum er færðar bestu þakkir fyrir en stefnan er að þær verði enn fleirri á skólaárinu.