Starfsdagar að hausti

Starfsdagar að hausti voru viðburðarríkir þetta árið. Starfsfólkið kom til starfa á nýjan leik eftir gott og nærandi sumarleyfi þann 15. ágúst og hófu undurbúning kennslu og sinntu starfsþróun.

Í ár fengum við til liðs við okkur tvo sérfræðinga þegar að námi og kennslu kemur, Dr. Mark Leather og Ingvar Sigurgeirsson prófessor. Dr. Mark Leather fór yfir óformlegar aðferðir í námi barna og útikennslu með öllum starfsmannahópnum. Mark hefur mikla og fjölbreytta reynslu þegar að menntun barna og ungmenna kemur en hann sérhæfir sig í útivistar- og upplifunaraðferðum við nám og kennslu.Mark kemur með skemmtilega nálgun við lærdóm og nám og telur að upplifun sé best þegar hún er skemmtileg og innihaldsrík. Starfsmannahópurinn lærði mikið á þessu námskeiði hjá Mark sem mun nýtast í vinnu með nemendum skólans.

Þann 18. ágúst kom Ingvar Sigurgeirsson prófessor til okkar en hann hefur leitt okkur áfram við að innleiða teymiskennslu undanfarin ár og mun starfa með okkur í vetur og aðstoða okkur við að ganga í takt. Það er afar gagnlegt fyrir okkur sem skólasamfélag að hafa sérfræðing eins og Ingvar okkur innan handar og aðstoða við næstu skref þegar að teymiskennslu kemur en sú kennsluaðferð er frábær og umlykur allt starf skólans.