Stapavaka unglingastigs 2022

Nemendur á unglingastigi Stapaskóla hafa í nóvember unnið hörðum höndum að hinni árlegu Stapavöku. Verkefnið er unnið í hópum eða einstaklingslega og er markmiðið að eflast í vísindalegum vinnubrögðum, miðlun upplýsinga og sjálfstæðum vinnubrögðum. Vakan er unnin sem vísindavaka og fengu nemendur tækifæri á að vinna æfingarverkefni til að tengjast betur því sem kæmi þar á eftir. Að því loknu var farið af stað og hönnuð tilraun með það að leiðarljósi að geta útskýrt skýrt og greinilega niðurstöður tilraunar í formi töflu, myndrits eða skífurits. Áhersla ársins var einmitt niðurstöður og skipti því miklu máli að vanda frásögn sína og upplýsingagjöfina alla.

Eins og árið á undan var nemendum boðið að taka þátt í keppni innan Stapavökunnar þar sem dómarar utan að komu og veitt voru verðlaun fyrir 1. til 3. sæti. Í ár gátum við jafnframt boðið foreldrum að koma og skoða afrakstur nemenda ásamt því að 5. og 6. bekkur fengu boð að koma, spjalla og skoða það sem eldri nemendur höfðu verið að vinna að.

Allir sem taka þátt í Stapavöku sýna afrakstur sinn en samhliða því að hópur nemenda sinnir því verkefni tekur annar hópur þátt í tækniteymi skólans. Sá hópur velur sig að vinna í þeim lið vökunnar og sér um mikilvæga hluti er koma að skipulagi miðlunar og utanumhald. Tækniteymið sér um að halda utan um upptökur allra en hóparnir taka upp myndbönd sem þeir svo senda til dómara. Einnig sér teymið um að skrásetja allt sem fer fram, halda utan um allar bókanir, leiðbeina við klippingu myndbanda og fleira. Það má með sanni segja að ekki væri hægt að standa fyrir slíku verkefni ef ekki væri fyrir þann flotta hóp nemenda undir stjórn Ninnu Stefánsdóttur kennara.

Föstudaginn 2. desember var uppskeruhátíð þessa verkefnis þar sem dómarar mættu í hús. Í ár vorum við það heppin að hafa fengið til liðs við okkur þau Helga Arnarson, sviðstjóra Fræðslusviðs, Fidu Abu Libdeh, forstýru Geosilica og Matthildi Emmu Sigurðardóttur, fyrrum nemanda Stapaskóla og einn af sigurvegurum Stapavökunnar árið 2021.

Sigurvegarar Stapavöku 2022 voru:

  1. sæti: Birgitta Fanney Bjarnadóttir og Magndís Kristjana Guðjónsdóttir í 10. bekk með tilraun sína; Kristallar.
  2. sæti: Dagbjört Dóra Kristmannsdóttir, Hekla Rún Sigurðardóttir, Íris Brynja Arnarsdóttir og Sólrún Freyja Halldórsdóttir í 7. bekk með tilraun sína; Oxun.
  3. sæti: Dejana Mrðanov í 10. bekk með tilraun sína; Conductivity

Að auki voru veitt hvatningarverðlaun sem féllu til þeirra: Daða Fannars Kristmannssonar, Gísla Kristjáns Traustasonar, Hafliða Leó Hleiðarssonar, Hinriks Bjarka Hjaltasonar og Ólafs Gunnars Jónassonar í 8. bekk með tilraunina; Þrýsting.

Við þökkum þeim fyrirtækjum sem lögðu okkur lið við að veita veglega vinninga en vinningar voru: gjafabréf frá Subway, Sambíóum, Ísbúðinni Huppu og KFC. Einnig gaf hárgreiðslustofan Glans veglegan vinning og sælgætisgerðin Góa gaf nemendum sætindi. Við þökkum kærlega fyrir frábæra og veglega vinninga.

Hér að neðan er hægt að sjá myndir af vinnu nemenda sem tækniteymið sá um að taka og safna saman.

Stapavaka 2022