Stapaskóli hlaut styrk fyrir vinnustofu gegn fordómum

Í byrjun mars hlaut Stapaskóli þrjár miljónir í styrk fyrir verkefnið "Vinnustofa gegn fordómum", sem leitt er af þeim Selmu Rut Iqbal ÍSAT kennara, Lindu Ósk Júlíusdóttur þroskaþjálfa og Guðrúnu Sigríði Magnúsdóttur kennara. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, afhenti styrkinn en hann kemur úr þróunarsjóði innflytjendamála. Alls hlutu 17 verkefni og rannsóknir samtals 50 milljónir króna í styrki.

Markmið styrksins er að auka lýðræðislegrar þátttöku innflytjenda og bæta aðgerðir gegn fordómum, haturstjáningu og ofbeldi og margþættri mismunun.

Markmið verkefnisins okkar í Stapaskóla er að þróa vinnustofu til að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu í samfélagi fjölbreytileikans í Reykjanesbæ. Vinnustofan verður þróuð í samvinnu við sérfræðinga og áhersla verður lögð á nemendalýðræði og því munu nemendur á unglingastigi í Stapaskóla taka mikilvægan þátt í þróun hennar. Vinnustofan verður fyrst unnin með nemendum í 10. bekk í Stapaskóla og vonir standa til að aðrir grunnskólar í Reykjanesbæ munu í framhaldinu taka þátt og þannig munu vonandi flestir nemendur í 10. bekk í Reykjanesbæ fara í gegnum vinnustofu gegn fordómum og hatursorðræðu.