Skólaslit - Upplestur rithöfundar

Miðvikudaginn 14. september sl. kom Ævar Þór Benediktsson rithöfundur í heimsókn til okkar í Stapaskóla og las fyrir nemendur í 5. – 7. bekk upp úr bók sinni Skólaslit.

Skólaslit er hugarfóstur rithöfundar og kennsluráðgjafa á Reykjanesi og var unnin í samstarfi við kennara og nemendur í október á síðasta ári. Hvern dag í október var birtur, spennandi og hrollvekjandi, kafli úr sögunni og fylgdust nemendur með af athygli. Nú í byrjun september var sagan svo gefin út í veglegri bók sem myndskreytt er af Ara Hlyn Guðmundssyni Yates.

Nemendur hlustuðu af athygli á upplestur Ævars og fengu svo tækifæri til að spyrja rithöfund ýmissa spurninga. Þá kynnti Ævar fyrir nemendum Skólaslit 2: Dauð viðvörun en ákveðið hefur verið að halda áfram með þetta verkefni nú í október þar sem nýr kafli sögunnar birtist á hverjum virkum degi.

Í lok heimsóknar færði Ævar Stapaskóla nokkur eintök af bókinni að gjöf og miðað við áhuga verða þau öll komin í útlán af bókasafninu fyrir lok vikunnar. Ævar þakkaði nemendum fyrir að hlusta af athygli, sýna prúðmennsku og spyrja skemmtilegra og áhugaverðra spurninga.