Skólasetning haldin hátíðlega

Miðvikudaginn 23. ágúst mættu nemendur í 1. - 10. bekk prúðbúnir á skólasetningu Stapaskóla. Nemendur mættu á sal og hlustuðu á ávarp Gróu Axelsdóttur skólastjóra. Gróa bauð alla hjartanlega velkomna og hafði sérstakt orð á því hvernig við í Stapaskóla leggjum áherslu á fjölbreytt vinnuumhverfir, aðstæður og kennsluhætti með það að leiðarljósi að allir nemendur fái að blómstra á eigin forsendum. Í vetur munu starfa við grunnskólastig um 370 nemendur og 60 starfsmenn, á leikskólastigi eru 89 nemendur og 20 starfsmenn. 

Helstu áherslur kennslufræði Stapaskóla eru samþætting námsgreina – heildstæð verkefni, áhugasviðsverkefni, fjölbreytt vinnuumhverfi og vellíðan nemenda og starfsfólks. Við viljum styrkja starfsmannahópinn í því að takast á við þau ólíku verkefni sem skólastarfið býður uppá. Við höfum undanfarfið sótt námskeið og fræðslu til efla útikennslunám okar í fjölbreyttri mynd og að verða enn betri í teymiskennslu. 

Við í Stapaskóla viljum vinna verkefni frekar en að vinna í vinnubók, verkefni sem við getum yfirfært í önnur verkefni út fyrir skólastarfið og að nemendur hafi áhrif á hvernig og hvað þeir eru að læra. Hvert er þitt áhugasvið? Hvað langar þig til að vita meira um? Hvernig geri ég það? Hvert leita ég? Þetta eru allt spurningar og ferli sem kennarar munu leiða nemendur í gegnum skólastarfið í vetur.

Starfsfólk Stapaskóla fer af stað með mikilli tilhlökkun inn í nýtt skólaár með GLEÐI - VIRÐINGU - SAMVINNU - VINÁTTU að leiðarljósi.