Sjúk ást

Í gær fengu nemendur í 8. - 10. bekk fræðslu sem kallast ´Sjúk ást´ frá starfsfólki Fjörheima.

Sjúkást er forvarnaverkefni Stígamóta um kynbundið ofbeldi og óheilbrigð samskipti, og beinist að ungu fólki upp að tvítugu. Verkefnið fór af stað árið 2018 og hafa fimm herferðir í tengslum við það litið dagsins ljós. Markmiðið er að fræða ungmenni um mörk og samþykki með það að leiðarljósi að útrýma kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi. Áhersla er lögð á að hjálpa ungmennum að þekkja muninn á heilbrigðum, óheilbrigðum og ofbeldisfullum samböndum, sem og að ungt fólk sé fært um að taka ábyrga afstöðu til kynlífs og kláms.

Sjúkást hefur átt gott samstarf við Samfés um fræðslu fyrir unglinga í efri bekkjum grunnskóla. Starfsfólk Stígamóta hefur útbúið fræðslupakka um mörk, samþykki og kynferðislega áreitni sem felst í 40-60 mínútna fyrirlestri, stuttum myndböndum og umræðum. Starfsfólk félagsmiðstöðva og ungmennahúsa um allt landa hefur fengið fræðslu og þjálfun frá Stígamótum í að nota pakkann með sínum krökkum.