Foreldrar / forráðamenn fylgjast með veðri!

Nú spáir frekar vondu veðri á morgun, miðvikudaginn 5. janúar. Við biðjum foreldra að fylgjast vel með veðurspám og vera viðbúin að þurfa að sækja börnin þegar skóla lýkur ef veðurspá gengur eftir.

Þegar veðurspár gefa til kynna að óveður sé í aðsigi á Suðurnesjum fylgjast Lögreglan og Almannavarnir gaumgæfilega með, hafa samstarf við skólana og gefa út viðvaranir til almennings, gerist þess þörf.

Mikilvægt er að foreldrar sjálfir fylgist með veðri og veðurspám  og hagi sér í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Foreldrar leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í og úr skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll.

Við slíkar aðstæður eru skólarnir opnir og þar er öruggt skjól fyrir börnin.

 

Tilkynning frá lögreglunni á Suðurnesjum:

Á miðvikudaginn er von á vægast sagt mjög djúpri lægð sem mun heldur betur láta okkur Suðurnesjamenn vita af sér og kemur með hvelli. Fræðingarnir segja þetta með dýpst lægðum sem sést hafa við Íslands strendur og viljum við því vera tímanlega með láta ykkur vita af þessu þar sem ekkert ferðaveður verður á þessu tímabili standist þessi spá. Vonandi eru allir búnir með jólaafgangana og því kjörið að fara út á morgun og tryggja allt lauslegt, henda svo í góðan kakóbolla og ilmandi hjónabandssælu og vera klár í veðrið.

Því viljum við biðla til ykkar að ganga frá öllu við ykkar byggingar s.s ruslatunnum og öðru lauslegu sem getur fokið og valdið tjóni. Passa upp á að allir gluggar og hurðar séu lokaðar. Endilega að vera tímanlega þannig að hægt verði að bregðast við ef eitthvað þarf að gera áður en veðrið skellur á.

Ef eitthvað tjón verður vegna veðurs og þið þurfið á aðstoð að halda þá á að hringja í 112. Við höfum enga burði til að bregðast við þegar kemur að tjóni vegna veðurs. Við munum koma þegar veður hefur lægt.