Nemendur Stapaskóla söfnuðu fyrir Unicef á aðventunni

ár ákváðu nemendur Stapaskóla að skiptast ekki á gjöfum á litlu jólunum líkt og undanfarin ár heldur safna frjálsum framlögum og gefa til góðs málefnis. Nemendur kusu um hvaða málefni skyldi styrkja og úr varð að neyðarsöfnun UNICEF fyrir börnin á Gaza varð fyrir valinu.

Síðastliðinn föstudag, þann 26. janúar kom Birta María Sigurðardóttir fulltrúi UNICEF á Íslandi til okkar og veitti söfnun nemenda viðtöku. Nemendur söfnuðu 191.728 krónum og voru það nemendur í 5. og 6. bekk sem voru við afhendinguna.

Við í Stapaskóla erum afar stolt af nemendum okkar fyrir að fara þessa leið. Það er rík hefð fyrir því að skiptast á gjöfum síðasta skóladaginn fyrir jól og það er ekki sjálfsagt mál að þessi leið sé farin. Frábært framtak hjá nemendum skólans.