Námsefnakynning leikskólastigs

Námsefnakynning leikskólastigs

Foreldrakvöld var haldið í vikunni á leikskólastigi Stapaskóla og þökkum við þeim sem sáu sér fært að mæta kærlega fyrir komuna. Alltaf gaman að fá tækifæri til að sýna foreldrum hvað fer fram í leikskólanum, þar sem börnin eru meirihluta vökutíma síns.

Í upphafi foreldrakvöldsins var aðalfundur foreldrafélagsins en í félaginu eru foreldrar eða forráðamenn nemenda í skólanum. Markmið félagsins eru að vinna að velferð nemenda, efla hag skólans og koma á sem bestu sambandi milli skólans og heimila nemenda. Félagið gengst fyrir ýmsum viðburðum fyrir foreldra og börn. Félagið hefur einnig fært skólanum gjafir sem koma sér vel fyrir börnin. Félagið sendir út gíróseðla til foreldra í byrjun nýs árs.

Á fundinum var ný stjórn kynnt fyrir skólaárið 2023-24:

Annarósa Ósk Magnúsdóttir, Erna Aðalheiður Karlsdóttir og Inga Sif Ingimundardóttir ákváðu að halda áfram en Silja Sigurðardóttir kemur ný inn.

Að loknum aðalfundi foreldrafélagsins fóru foreldrar inn á deildir sinna barna þar sem búið var að leggja fram námsefnið. Geimskip sem var byggt úr einingakubbum af börnum á Óskasteini vakti mikla hrifningu og  þótti tilfinningaskrímslið á Álfasteini áhugavert. En það voru fleiri sem komu við sögu á þessu kynningarkvöldi og má þar helst nefna Bínu bálreiðu, Blæ og Lubba, sem er íslenskur fjárhundur sem langar að læra að tala íslensku.

Einnig erum við í miklu og góðu samstarfi við grunnskólastig Stapaskóla.

Jórunn tónmenntakennari kemur til okkar einu sinni í viku og hittir tvo yngri árganganna en tveir eldri árgangarnir fara til hennar upp í grunnskóla, líka einu sinni í viku.

Tveir elstu árgangarnir fara í leikfimitíma hjá Viktori íþróttakennara upp í grunnskóla og einnig fá þeir árgangar að fara í smiðjur en þar hitta þau Brynju náttúrufræðikennara, Hauk smíðakennara og Agöthu textílkennara.

Okkur finnst við mjög lánsöm að vera í samreknum leik- og grunnskóla þar sem við lærum og leikum sem ein heild.

Við erum afskaplega stolt og ánægð með námsefnið okkar og fannst okkur gaman að fá tækifæri til að sýna foreldrum að sjá hvernig við kennum börnunum í gegnum leikinn.

 

Hægt er að skoða fleiri myndir hér.