Lubbastundir í leikskólanum

Lubbastundir byggjast á bókinni Lubbi finnur málbein, íslensku málhljóðin sýnd og sungin sem er eftir þær Eyrúnu Ísfold Gísladóttur og Þóru Másdóttur.

Lubbi er íslenskur fjárhundur. Hann er duglegur við að gelta og þá heyrist ,,voff-voff-voff“. Lubba langar mikið að læra að tala en þá vandast málið því þá þarf hann að læra öll íslensku málhljóðin. Krakkarnir ætla að hjálpa Lubba að læra íslensku málhljóðin með söng og ýmsum öðrum æfingum.

Það sem hundum finnst best að naga er bein og er Lubbi engin undantekning. Þess vegna líta málhljóðin út eins og bein og nagar Lubbi beinin og lærir með því að tala smátt og smátt. En hann þarf góða aðstoð og ætla krakkarnir að aðstoða hann.

Í bókinni er hvert hljóðið táknað með litlum og stórum bókstaf. Hvert málhljóð er tekið fyrir á síðu eða opnu. Hverju málhljóði fylgir ákveðið lag og einnig stutt saga sem lögð er sérstök áhersla á hvert hljóð fyrir sig. Hvert málhljóð á sér ákveðið tákn, í þeim táknum er oft á tíðum stuðst við tákn með tali. Með því að tengja hljóðið við táknræna hreyfinguna er auðvelt að læra það og muna. Vísurnar fjalla um hljóðin. Þær eru skemmtilegar og auðvelt að læra þær utan bókar. Það er gaman að syngja með og tákna hljóðin um leið.

Einnig eru í bókinni stuttar sögur sem tengjast hverju hljóði. Í sögunni má finna hljóðið fremst í orði, inni í orði eða aftast í orði. Sögurnar geyma fjölbreyttan orðaforða og hvetja til auðugs málfars.

Að lokum vil ég taka fram að við erum ekki að kenna börnunum stafina heldur hljóðin sem þeir segja. Auðveldar það börnunum að tengja hljóðin við stafina þegar að því kemur. Lubbaefnið gefur nefnilega færi á ótal skemmtilegum og fjölbreyttum leikjum sem ýta undir hljóðanám, stafa-hljóðaþekkingu, hljóðavitund og fleiri undirstöðuþætti fyrir lestrarnám.

Í forstofunni í leikskóla Stapaskóla situr Lubbi og sýnir þann staf sem verið er að vinna með hverju sinni.

 Lubbastundir myndir