List og lífbreytileiki - boðskort á sýningu

Í vetur kom frétt um heimsókn frá rithöfundinum Sverri Norland í tengslum við samvinnuverkefni frá Náttúruminjastofnun Íslands þar sem nemendur í 5. og 6. bekk fengu kennslu í skapandi skrifum. Eftir heimsóknina héldu nemendur áfram vinnu við skrif og einbeittu sér að því að segja sögur af lífverum eða hlutum í ákveðnum vistkerfum. 5. bekkur tók að sér að fjalla um Stapann okkar og 6. bekkur um Geldingadali. Í kjölfarið hönnuðu hóparnir listaverk af svæðunum þar sem útlitið var hannað með því að leira, nota pappa og annan efnivið. Nemendur hönnuðu líka lífverurnar með ýmsum leiðum, t.a.m. þrívíddarprentun, útsaumi og leir.

Öll vinna þeirra verður til sýnis á listasýningu barna í Reykjavík, nánar tiltekið í sýningasal Náttúruminjastofnunar Íslands í Perlunni. Opnun sýningarinnar verður þriðjudaginn 18. apríl. Við hvetjum alla til þess að kíkja við og skoða skemmtilegu sögurnar sem þau hafa hamast við að búa til ásamt listaverkunum sem eru virkilega flott. Ókeypis er inn á sýninguna fyrir þátttakendur og fylgjendur þeirra en sýningin er á 2. hæð Perlunnar. Á sama stað og sýningin er, er einnig hægt að skoða sýningu Náttúruminjasafns um Vatnið í náttúru Íslands. Listi yfir skóla og þátttakendur verður í móttöku Perlunnar og er nóg að gefa sig fram þar til að komast inn.