GLEÐI - VINÁTTA - SAMVINNA - VIRÐING

Kæru foreldrar/forráðamenn,

þá er vika tvö að líða og skert skólahald heldur áfram óbreytt. Skólastarfið hefur tekið miklum breytingum á þessum tveimur vikum og eiga kennarar og starfsmenn hrós skilið fyrir að bregðast við óvanalegu ástandi með fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum. Í svona árferði skapast alltaf tækifæri á að prófa nýja hluti og ögra börnunum.
Stapaskóli leggur sig fram við að viðhalda gildunum, GLEÐI - VINÁTTA - SAMVINNA - VIRÐING á þessum tímum sem öðrum. Reynt er að halda í gleðina og gefa börnunum verkefni sem eru skemmtileg í bland við verkefni sem reyna á, vinátta barnanna skín í gegnum leik og starf og eru þau strax farin að tala um hvað þau sakna bekkjarfélaga sinna sem eru í hinum hópunum. Lykilatriði á svona tímum er samvinna allra aðila og virðing fyrir hvert öðru og ákvörðunum.
Börnin ykkar eru örugg á skólatíma og í bréfi landlæknis og sóttvarnarlæknis nú í vikunni eru foreldrar minntir á það að senda heilbrigð börn í skólann. Margir foreldrar/forráðamenn hafa valið að hafa börnin sín heima og berum við virðingu fyrir þeirri ákvörðun. Lykilatriði er að fylgja eftir lestrinum og þeim verkefnum sem kennarar leggja fyrir.
Næsta vika er með sama sniði og síðustu tvær. Hópur 1 mætir í skólann á þriðjudag og fimmtudag. Hópur 2 mætir mánudag, miðvikudag og föstudag. Þetta er vikan fyrir páskafrí sem hefst þá mánudaginn 6.apríl.


Takk fyrir vikuna kæru fjölskyldur og njótið helgarinnar.

Kærar kveðjur

Gróa og Heiða Mjöll skólastýrur