Skólastarf hafið skólaárið 2021 - 2022

Í dag fór skólasetning fram við Stapaskóla í þriðja sinn. Nemendur í 2. – 10. bekk mættu í tvenndir sínar til umsjónarkennara án foreldra að þessu sinni. Umsjónarkennarar fóru yfir helstu upplýsingar og buðu nemendur hjartanlega velkomna til starfa.

Nemendur í 1. bekk mættu til skólasetningar á sal ásamt foreldrum. Þar hélt Gróa skólastjóri ræðu og setti skólann. Nemendur fengu rós afhenta í tilefni dagsins.

Starfsfólk Stapaskóla leggur af stað með miklum krafti og gleði. Gleði yfir því að vera að taka á móti nemendum okkar, gleði yfir því að enn á ný fáum við tækifæri til að skapa fjölbreytt, skapandi og skemmtilegt skólaumhverfi með það að leiðarljósi að nemendur geti mætt þörfum sínum, kynnst sjálfum sér betur og náð markmiðum sínum. Við erum öll ólík og einstök. Allir nemendur okkar tilheyra og skipta máli.

Framundan eru spennandi tímar sem bjóða uppá óteljandi tækifæri í skólastarfi margbreytileikans. Við viljum að börnin okkar nái bestum árangri og þá á ég við út frá þeirra eigin markmiðum ekki einhverri tölu eða bókstaf á blaði. Við ætlum að gera okkar besta við að þjónusta ykkur öll.

 

Með gleði í hjarta og bros á vör

Býð ég ykkur velkomin í Stapaskóla skólaárið 2021 til 2022

Gróa Axelsdóttir

Skólastjóri Stapaskóla