Cole vann Ljóðaflóð 2022

Í tilefni af degi íslenskrar tungu í nóvember síðastliðnum hélt Menntamálastofnun, í samstarfi við Krakkarúv, ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóð 2022. Sigurvegari á unglingastigi var Cole, nemandi í 10. bekk Stapaskóla. Við óskum Cole innilega til hamingju með frábæran árangur!

Cole skrifar mikið af ljóðum og sögum og það kom kennurum því ekki á óvart þegar þau sigruðu Ljóðaflóðið. Cole sigraði keppnina með ljóði sínu Gler. Í umsögn dómnefndar segir: Tvær myndir bera uppi þetta tæra ljóð. Hér nær skáldið að lýsa flókinni og þversagnakenndri tilfinningu sem kristallast í átökum hita og kulda, fjarveru og nærveru. Í einfaldleikanum býr margræðnin.

Gler (eftir Magdalenu Sunnu Modzelewska (Cole))

Ég vildi að ég væri gler,
sem allir sjá í gegnum,
eða kannski ís,
sem bráðnar þegar við snertumst.

Nánar má lesa um keppnina og úrslit í öðrum flokkum á vef Menntamálastofnunar.