Árshátíð Stapaskóla

Árshátíð Stapaskóla fóru allar þrjár fram á sal skólans miðvikudaginn 14. apríl.

Hátíðin heppnaðist í alla staði afar vel og gleði ríkti hjá nemendum þegar þau tóku þátt í sýningunum og sýndu afrakstur undanfarinna vikna. Eins og við var að búast sýndu nemendur bæði fjölbreytt og glæsileg atriði með leik, söng og dansi. Að þessu sinni var ekki hægt að bjóða foreldrum eða öðrum aðstandendum til okkar að horfa á vegna sóttvarnaraðgerða en öll atriðin voru tekin upp og myndbönd búin til sem hafa verið send til foreldra. Það var af ýmsu að taka þegar að skemmtiatriðunum kom.

Á árshátíð 1. – 3. bekkjar var mikið um söngatriði auk þess sem nemendur í 2. bekk spiluðu lagið Blokklingarnir á blokkflauturnar sínar.

Hjá 4. – 6. bekk var leikurinn viðamikill en þar ber helst að nefna nemendur í 5. bekk sem stigu á stokk með frumsamið leikrit um árið 2020 sem sló í gegn. Nemendur í 4. bekk voru einnig með frumlegt atriði þar sem áhugamál nemenda voru í aðalhlutverki.

Unglingastigið var ekki síðra en nemendur í 7. bekk sýndu skemmtilegt myndband þar sem m.a. var verið að stríða starfsfólki skólans, nemendur 8. bekkjar voru með leikþátt og tvær stúlkur í 9. bekk sýndu frumsaminn dans en þær lentu einmitt í þriðja sæti í danskeppni Samfés fyrr í vetur. Leiklistarval skólans sýndi einnig afrakstur vetrarins en þau tóku stutt sýnishorn úr leikritinu Aladdín sem þau hafa verið að æfa í vetur.