Löggan kom með Blæ

Í síðustu viku fengum við óvænta heimsókn á leikskólastig Stapaskóla.  Lögreglan var við venjubundið eftirlit við skólann og ákvað að kíkja inn á flottu krakkana á leikskólastigi Stapaskóla. Ekki nóg með það heldur færðu þau krökkunum á Völusteini Blæ litla, bangsa sem þau munu eiga í leikskólanum alla sína leikskólagöngu.

Leikskólinn okkar er Vináttuskóli en Vinátta er forvarnarverkefni sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa að og gefa út í samstarfi við Red Barnet – Save the Children í Danmörku og Mary Fonden samtökin. Markmið Vináttu er að: efla félagsfærni, styrkja sjálfsmynd, stuðla að jákvæðum samskiptum, efla samstöðu og að koma í veg fyrir einelti innan barnahópsins. Jafnframt byggir verkefnið á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem eru í samræmi við Barnasáttmálann, heimsmarkmiðin og aðalnámskrá. Til að ná sem mestum árangri er mikilvægt að allir sem koma að börnunum séu samstíga, þekki Vináttu og tileinki sér gildin sem hugmyndafræðin byggir á en þau eru: virðing, hugrekki, umburðarlyndi og umhyggja. Þar skipta foreldrar einna mestu máli enda eru þeir fyrirmyndir barna sinna og spegla þeirra viðhorf, framkomu og samskipti. Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu, honum fylgja litlir hjálparbangsar sem ætlaðir eru hverju barni sem tekur þátt í Vináttu. Blær og hjálparbangsarnir tákna traust og vináttu og er ætlað að minna börnin á að passa upp á aðra og að vera góður félagi allra. Litli Blær á heima í skólanum en börnin fá hann með sér heim að lokinni leikskólagöngu.