- Skólinn
- Nám & kennsla
- Stoðþjónusta
- Frístundaheimilið
- Leikskólastig
- Foreldrar
- Hagnýtt
- Farsæld barna
Aðra vikuna í maí var mikið um að vera í skólanum okkar þegar nemendur í 7. bekk tóku á móti góðum gestum frá Grikklandi og Ítalíu. Hópurinn samanstóð af kennurum, nemendum og nokkrum foreldrum sem öll voru mjög spennt að kynnast landinu okkar. Heimsóknin var liður í Erasmus+ verkefni að nafni VOLT (e. Volcanoes as teachers) og reyndist vera einstaklega gefandi fyrir alla þátttakendur.
Íslensku nemendurnir sýndu mikið frumkvæði strax í upphafi heimsóknarinnar með kynningum um land og þjóð. Þau fjölluðu um sérstöðu Íslands, á jarðfræði landsins, menningu, tónlist og hvernig forfeður okkar nýttu landið okkar. Erlendu gestirnir voru mjög áhugasamir og sýndu kynningunum mikinn áhuga. Einnig tóku nemendur og foreldrar sig til og buðu gestum okkar upp á smakk af Íslandi þar sem hugrakkir einstaklingar smökkuðu m.a. hákarl.
Fyrri hluta vikunnar var farið í eftirminnilega ferð um Reykjanesið og ferðaðist allur 7. bekkur með ferðalöngunum um svæðið. Hópurinn heimsótti Brúna á milli heimsálfa, þar sem gestirnir fengu að upplifa á áþreifanlegan hátt hvernig jarðskorpuflekar Evrópu og Ameríku mætast. Við Reykjanesvita nutu allir útsýnisins yfir úfið hafið og fengu kynningu á gígamyndum og uppröðun þeirra í tenginu við flekaskilin. Gunnuhver vakti mikla athygli gestanna, en hverinn var einstaklega virkur þennan dag og eftir að hafa heyrt söguna um nafngift hans virtist skap Gunnu einstaklega mikið þann daginn. Að lokum ferðarinnar var stoppað í Grindavík. Þar var saga samfélagsins sögð út frá jarðhræringum og hvaða áhrif slíkar hamfarir geta haft á heilt sveitarfélag.
Seinni hluta vikunnar var hópurinn smærri, en þá fóru gestir okkar ásamt þeim fjórum nemendum sem fóru til Grikklands í minni ferðir. Farið var að nýja hrauninu við Fagradalsfjall, þar sem gestirnir fengu einstakt tækifæri til að skoða nýtt hraun og læra um eldvirkni á Íslandi. Heimsókn í Bláa lónið var einnig á dagskrá, þar sem gestirnir upplifðu einstaka náttúruparadís og lærðu um nýtingu jarðhita.
Hápunktur ferðarinnar var dagur sem varið var í að skoða Gullna hringinn. Þingvellir, Gullfoss og Geysir heilluðu gestina og veittu þeim dýpri skilning á náttúru Íslands og sögu. Þessi ferð vakti sérstaka ánægju meðal gestanna, sem margir hverjir höfðu aldrei séð sambærileg náttúrufyrirbæri.
Við þökkum gestum okkar við virkilega skemmtilega og gefandi tíma saman. Nemendur okkar stóðu sig frábærlega sem gestgjafar og sýndu mikla færni í að miðla þekkingu um land og þjóð.