Hátíðleg athöfn á sal skólans - skólaslit og útskrift 10. bekkjar

Skólaslit og útskrift 10. bekkjar fór fram dagana 7. og 8. júní við hátíðlega athöfn á sal skólans og inni í tvenndum nemenda.

Vorið og upphaf sumarsins er uppskeruhátíð nemenda og starfsfólks grunnskólanna en þá tökum við saman hvernig okkur gekk yfir árið. Á skólaslitum fá nemendur vitnisburð sinn og staðfestingu á vinnu sinni síðast liðna mánuði. Ásamt því að lesin eru upp hrósskjöl hvers nemenda þar sem bekkjarfélagar og starfsfólk, sem kemur að hópnum, setja fram styrkleika allra í fallegan heildstæðan texta.

Í ávarpi skólastjóra var reifað á helstu áherslum Stapaskóla og því öfluga skólastarfi sem á sér stað. Hvernig starfsmenn eru sífellt að vinna að einkunnarorðum skólans í gegnum gildi til að auka vellíðan nemenda. Mannauður skólans er ótrúlega kraftmikill og faglegur og gerir sitt besta við að skapa aðstæður með leiða að sér aukna gleði í námi, aukna vellíðan nemenda og gefa hverjum og einum grunn til að vera stoltur af sjálfum sér. Að bera höfuð hátt við skólalok, að hafa trú á eigin getu og að hafa trú á því að draumar geta ræst.

Í vetur höfum við unnið að mörgum og fjölbreyttum verkefnum í gegnum samþættingu námsgreina, í gegnum þemaverkefni, í gegnum byrjendalæsi, í gegnum smiðjur o.s.frv. Verkefni sem kennarar eru að skapa til að námið sé skemmtilegt og líka krefjandi. Það er nefnilega þannig að aðalnámskrá grunnskólana gefur okkur ákveðið frelsi í því hvernig við leggjum inn þau markmið sem okkur ber að gera á grunnskólagöngu nemenda. Óteljandi markmið sem er hægt að kenna á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt. Hér er aðeins lítill hluti af verkefnum sem nemendur tóku þátt í í vetur:

  • Friðarhlaupið, þar sem allir nemendur tóku þátt núna í september en þangað mættu hlauparar frá ýmsum löndum með logandi kyndil sem nemendur fengu tækifæri á að hlaupa með.
  • Verkefnið Líf og listbreytileiki, hjá 5. og 6 bekk sem var á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Þar var unnið að fjölbreyttum verkefnum sem enduðu á listasýningu barna í Perlunni í Reykjavík.
  • Stuttmyndakeppnin Sexan sem nemendur í 7. bekk tóku þátt í og uppskáru góðan árangur.
  • Stapavakan var haldin í desember þar sem nemendur í 7. – 10. bekk tóku þátt í verkefni  með það að markmiði að eflast í vísindalegum vinnubröðum, miðlun upplýsinga og sjálfstæðum vinnubrögðum. Nemendur lögðu fram tilraun og niðurstöður fyrir dómara sem mátu þær og völdu sigurvegara vökunnar. Það voru þær Birgitta Fanney og Magndís Kristjana í 10. bekk sem báru sigur af hólmi með verkefni sitt – Kristalar.
  • Í tilefni af degi íslenskrar tungu hélt Menntamálastofnun í samstarfi við Krakkarúv ljóðasamkeppni sem hét Ljóðaflóð 2022. Það var Magdalena Sunna nemandi í 10. bekk sem bar sigur úr býtum með ljóðið Gler.
  • Stóra upplestrarkeppni nemenda í 7. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar fór fram í Hljómahöll 9. mars sl. Það voru þær Dagbjört Dóra og Íris Brynja sem tóku þátt fyrir hönd Stapaskóla. Íris Brynja endaði í 3. sæti sem er frábær árangur þar sem keppnin var einstaklega jöfn og spennandi.
  • Suðurnesjamót í skólaskák var haldin hér í Stapaskóla 19. apríl sl. í fyrsta sinn. Þar komu saman um 190 þátttakendur úr grunnskólum af Suðurnesjum. Virkilega gaman að sjá áhuga og afrakstur nemenda sem verður vonandi árlegt mót hjá okkur.
  • Skólahreystilið Stapaskóla vann sinn riðill og fór í úrslitakeppnina þann 20.maí. Þau Leonard, Vala, Jens, Júlíana, Íris og Gísli stóðu sig öll frábærlega vel.
  • Í ár hannaði Birna Margrét nemandi í 10. bekk lukkudýr skólans sem er Refur. Hún gerði skissur af nokkrum dýrum sem lagðar voru til grundvallar í kosningu hjá nemendum. Við viljum þakka Birnu fyrir frumkvæðið og vandaða vinnu.

Á vordögum voru þrjú málþing haldin, fyrsta var Skólaþing með foreldrasamfélaginu þar sem unnið var út frá yfirskriftinni Hvað einkennir góðan skóla. Þar mættu rúmlega 30 foreldrar sem skiluðu af sér góðri vinnu sem unnið er með áfram inn í umbótaáætlun skólans. Nemendur í 7. – 10. bekk fengu einnig tækifæri á að koma sínum skoðunum á framfæri. Virkilega góð vinna sem þeir skiluðu og nýtt verður inn í umbótavinnu næsta skólaárs. Að lokum var haldið málþing Stapaskóla – uppgjör teymiskennslu þar sem kennarar kynntu þau verkefni sem stóðu uppúr í skólastarfi vetrarins. Í þetta sinn var gestum boðið að koma og fylgjast með.

Skólastarf í skólanum okkar er mjög lifandi og fjölbreytt og vekur sífellt meiri og meiri eftirtekt skólasamfélagsins á Íslandi og Evrópu. Til okkar streyma skólahópar alls staðar af landinu og Evrópu til að sjá hvað það er sem nemendur eru að gera. Við erum ofsalega stolt af því sem við höfum afrekað á þessum stutta tíma. Saman höfum við skapað aðstæður sem eru framúrskarandi fyrir nemendur, með skapandi og samþættum verkefnum sem fyrir mörgum er bara eins og leikur einn. Að búa þannig um námið að það sé fjölbreytt, skemmtilegt og krefjandi er áskorun en með skólafólk eins og hér starfar þá eru engin takmörk heldur óteljandi tækifæri.

Í ár eru nokkrir starfsmenn að kveðja og fara á vit nýrra ævintýra. Við viljum þakka þeim fyrir samfylgdina og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi. Þeir fengu afhenta rós í þakklætiskyni.

Ásta Mjöll Þorsteinsdóttir
Díana Ósk Arnardóttir
Elfa Ingvadóttir
Ingibjörg Birta Jóhannsdóttir
Ísabella Lind Baldvinsdóttir
Steinunn Ágústa Steinarsdóttir

Á útskrift 10. bekkjar voru viðurkenningar veittar fyrir framúrskarandi árangur á ýmsum sviðum

Framúrskarandir árangur á grunnskólaprófi:

  • Abdallah Rúnar sem hefur sýnt að með dugnaði og að tileinka sér vaxtarhugarfar getur maður allt.
  • Auður sem sýnir mikinn metnað í öllu námi. Hún setti sér skýr markmið og vann ötullega að þeim allt unglingastigið.

Viðurkenning fyrir skapandi og gagnrýna hugsun:

  • Heiðar Darri er lausnamiðaður, skilgreinir vandamál vel og sýnir einstaka þrautseigju við að leysa þau. Hann er hjálplegur bæði nemendum og kennurum, má þar nefna aðstoð við kennslu í forritun og að búa til forrit sem nýtist í skólastarfi.
  • Magdalena Sunna er hugsjónamanneskja sem les vel tilfinningar og mannlega tilveru. Þessa hæfni virkjar hún í ljóðum sínum. Hún semur ljóð sem fjalla um mannlega tilveru og tilvistarkreppu, dýpstu tilfinningar, erfiða reynslu og gleðileg augnablik.

Viðurkenning fyrir þrautseigju og dugnað í námi:

  • Íris Arna hefur sýnt mikinn metnað í námi og þrautseigju við allar áskoranir. Hún setti sér snemma ákveðin markmið og hefur einbeitt sér að því að ná þeim. Hún sýnir einstaka vinnusemi og dugnað í öllu daglegu starfi.
  • Ragnheiður Inga hefur sýnt mikla þrautseigju og dugnað í námi sínu þrátt fyrir miklar áskoranir. Hún hefur náð einstökum tökum á að nýta sér fjölbreytta tækni sér til stuðnings í námi og hefur miðlað af þeirri þekkingu til annarra nemenda á unglingastigi.

Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur í skólaíþróttum:

  • Leonard Ben er mikill íþróttamaður se sýnir góða mætingu með fyrirmyndar virkni í kennslustundum. Hann er duglegur að miðla af reynslu sinni til sanemenda ásamt því sýnir hann ávallt kurteisi og virðingu til þeirra og kennara. Hann hefur verið mikilvægur hlekkur í skólahreystiliði Stapaskóla sl. þrjú ár.
  • Valgerður Kristín er vinnusöm, jákvæð, flottur leiðtogi í íþrótta- og sundtímum. Hún leggur sig alltaf fram í því sem hún tekur sér fyrir hendur og sýnir ávallt kurteisi og virðingu til samnemanda og kennara. Hún hefur verið mikilvægur hlekkur í skólahreystiliði Stapaskóla síðastliðin þrjú ár.

Viðurkenning fyrir framúrskarandi hæfni á sviði verk- og listgreina:

  • Una Rós er einstaklega skapandi nemandi, sjálfstæð, lausnamiðuð og með framúrskarandi hæfni á sviði verk- og listgreina.
  • Valgerður Kristín er sérstaklega sjálfstæð og tæknilega sterk á sviði myndlistar með skýra sýn, frjóa og skapandi hugsun og sýnir framúrskarandi hæfni á sviði verk- og listgreina.

Sérstaka viðurkenningu hlaut Birna Margrét fyrir hugmyndavinnu og sköpun á lukkudýri Stapaskóla. Við þökkum henni fyrir frumkvæðið og vandaða vinnu.

Starfsfólk Stapaskóla þakkar fyrir dásemdar skólaár og óskar skólasamfélaginu gleðilegs sumars.

Myndir: Skólaslit og útskrift 10. bekkjar 2023