Fréttir

Páskafrí í Stapaskóla

Síðasti kennsludagur fyrir páska á grunnskólastigi er föstudagurinn 22. mars. Frístundaheimilið Stapaskjól er einnig lokað í páskafríinu. Leikskólastig er áfram opið dymbilvikuna 25. - 27. mars en þá hefst páskafrí á leikskólastigi. Fyrsti skóladagur eftir páska er þriðjudagurinn 2. apríl. Starfsfólk óskar ykkur gleðilegra páska og hlökkum til að taka á móti börnum ykkar með bros á vör þriðjudaginn 2. apríl.
Lesa meira

Stapaskóli hlaut styrk fyrir vinnustofu gegn fordómum

Í byrjun mars hlaut Stapaskóli þrjár miljónir í styrk fyrir verkefnið Vinnustofa gegn fordómum, sem leitt er af þeim Selmu Rut Iqbal Ísat kennara, Lindu Ósk Júlíusdóttir Þroskaþjálfa og Guðrúnu Sigríði Magnúsdóttur Kennara. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um styrkinn en hann kemur úr þróunarsjóði innflytjendamála. Alls hlutu 17 verkefni og rannsóknir samtals 50 milljónir króna. Markmið styrksins er að auka lýðræðislegrar þátttöku innflytjenda og bæta aðgerðir gegn fordómum, haturstjáningu og ofbeldi og margþættri mismunun. Markmið verkefnisins okkar í Stapaskóla er að þróa vinnustofu til að vinna gegn fordómum og hatursorðræðu í samfélagi fjölbreytileikans í Reykjanesbæ. Vinnustofan verður þróuð í samvinnu við sérfræðinga og áhersla verður lögð á nemendalýðræði og því munu nemendur á unglingastigi í Stapaskóla taka mikilvægan þátt í þróun hennar. Vinnustofan verður fyrst unnin með nemendum í 10.bekk í Stapaskóla og vonir standa til að aðrir grunnskólar í Reykjanesbæ munu í framhaldinu taka þátt og þannig munu vonandi flestir nemendur í 10.bekk í Reykjanesbæ fara í gegnum vinnustofu gegn fordómum og hatursorðræðu.
Lesa meira

Innritun tilvonandi 1. bekkinga í grunnskóla fyrir skólaárið 2024-25

Innritun er hafin fyrir börn sem eiga að fara í 1. bekk grunnskóla í Reykjanesbæ haustið 2024. Gert er ráð fyrir því að foreldrar séu búnir að skrá börn sín fyrir 20. apríl. Í Reykjanesbæ sækja nemendur grunnskóla samkvæmt skólahverfum. Foreldrar sækja um skólavist fyrir börn sín á íbúavefnum Mitt Reykjanes. Hér má skoða frekari upplýsingar um grunnskóla Reykjanesbæjar
Lesa meira

Verkefni um viðbragðsaðila á Óskasteini

Krakkarnir á Óskasteini eru að vinna með viðbragðsaðila eftir aðferðafræði könnunaraðferðinnar. Í gegnum könnunaraðferðina læra börn með því að framkvæma (learning by doing). Liður í því var að fá vin okkar Gunnar Jón hjá Brunavörnum Suðurnesja í heimsókn að sína okkur sjúkrabíl og segja okkur frá sjúkraflutningum. Til að sýna þeim hvernig þetta virkar allt saman var Ísabella lögð á börurnar og sögðust sjúkraflutningamennirnir ætla að fara með hana á elliheimilið. Það fannst krökkunum mjög fyndið. Síðan fengu allir að skoða sjúkrabílinn. Mikið er nú gott að eiga svona góða vini hjá Brunavörnum Suðurnesja, takk fyrir heimsóknina.
Lesa meira

Skemmtileg heimsókn á leikskólastigi: Leikgleði með sögum og söng!

Í vor fengu allir leikskólar Reykjanesbæjar ásamt Bókasafni Reykjanesbæjar styrk til að vinna sameiginlega að þróunarverkefninu Leikgleði gegnum sögur og söng. Verkefnið gengur út á að efla hugtakaskilning, orðaforða, hlustunarskilning og frásagnarhæfni barna með aðferðum sem byggja á leik, söng og virkni. Með því eru börnin gerð virkir þátttakendur í tónlistinni, dansinum, hljóðunum eða leiknum sem byggir á sögunum sem unnið er með. Verkefnastjóri verkefnisins er Ólöf Kristín Guðmundsdóttir kennsluráðgjafi á Menntasviði Reykjanesbæjar og sérfræðingur verkefnisins er Birte Harksen. Birte hefur starfað sem leikskólakennari í 25 ár og hefur m.a. fengið Íslensku menntaverðlaunin sem framúrskarandi kennari. Hún heldur einnig úti heimasíðunum bornogtonlist.net og leikuradbokum.net. Í vikunni fengum við Birte og samstarfskonu hennar Immu í heimsókn til okkar á leikskólastigið. Þær voru með sögustund þar sem bæði börn og kennarar tóku þátt. Í sögustundinni lásu þær bók fyrir hópinn og má segja að sagan hafi lifnað við. Börn og kennarar völdu sér sögupersónu úr bókinni og úr varð mjög skemmtilegur leikur og öll skemmtu sér konunglega. Heimsóknin endaði á Birte- og Immu söngstund, þar sem þær sungu fyrir okkur nokkur lög og brugðu sér í fjölmörg hlutverk. Sem dæmi má nefna krókódíl, tígrisdýr, dreka og skrítnar galdranornir! Við í Stapaskóla vorum svo sannarlega í skýjunum eftir daginn og þökkum Birte og Immu kærlega fyrir heimsóknina.
Lesa meira

Skólakeppni Stóru Upplestrarkeppninnar

Skólakeppni Stóru Upplestrarkeppninnar var haldin á sal Stapaskóla þriðjudaginn 20. febrúar. Keppnin er árlegur viðburður í starfi skólans, nemendur í 7. bekk hefja formlegan undirbúning upplestrar á Degi íslenskrar tungu. Nemendur eru hvattir til að lesa og æfa sig í vönduðum upplestri með það að markmiði að vera þátttakendur í keppninni sem haldin er ár hvert. Í ár voru sex nemendur sem unnu sér rétt til þátttöku í skólakeppninni eftir bekkjarkeppni sem haldin var sl.þriðjudag. Þeir sex nemendur sem unnu sér rétt til þátttöku í skólakeppninni voru: Dagný Lilja Ásgeirsdóttir Kolbeinn Magnússon Smith Hildur Ósk Guðnadóttir Gabríel Örn Ágústsson Sara Björt Alexandersdóttir Daníel Orri Hjaltason Keppnin tókst einstaklega vel og voru nemendur mjög vel undirbúnir. Dómarar í keppninnar í ár voru: Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari fisktækniskólanns, Katrín Jóna Ólafsdóttir deildastjóri í Akurskóla og Brynhildur Sigurðardóttir kennari við Stapaskóla. Sigurvegarar keppninnar fá keppnisrétt á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem mun fara fram í Hljómahöll 6.mars nk. Sigurvegararnir voru þau Hildur Ósk Guðnadóttir og Gabríel Örn Ágústsson. Auk þeirra var Sara Björt Alexandersdóttir valin sem varamaður en þau koma öll til með að halda áfram æfingum og undirbúa sig fyrir lokakeppnina. Við óskum öllum keppendum til hamingju með vandaðan upplestur og hugrekki að standa fyrir framan fullan sal af fólki. Einnig þökkum við kennurum fyrir undirbúninginn og nemendum í sal fyrir gott hljóð og kurteisi. Íris Brynja og Dagbjört Dóra komu og fluttu ljóð fyrir hópinn en þær kepptu í Hljómahöll fyrir hönd Stapaskóla á síðast skólaári.
Lesa meira

Breyting á skóladagatali

Árshátíð Stapaskóla færist frá 11. apríl til 24. apríl. Breytingin hefur verið staðfest af starfsfólki og skólaráði. Nemendur í 7. - 10. bekkur eru með sína árshátíð að kvöldi 23. apríl og nemendur í 1. - 6. bekk miðvikudaginn 24. apríl.
Lesa meira

Vetrarfrí á grunnskólastigi

Á morgun fimmtudag og föstudag, 15. og 16. febrúar, er vetrarfrí á grunnskólastigi. Þá er skólinn og frístundaheimilið lokað.
Lesa meira